Málefni fatlaðra til sveitarfélaga
Heildarsamkomulag á milli ríkis og sveitarfélaga um yfirfærslu þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga, var undirritað í gær 23. nóvember. Sú þjónusta sem ríkið hefur veitt fötluðu fólki samkvæmt lögum nr. 59/1992 um málefni fatlaða færist nú til sveitarfélaga þann 1. janúar 2011.
Markmiðin með yfirfærslunni eru eftirfarandi:
- að bæta þjónustu og auka möguleika til að laga hana að þörfum notenda með hliðsjón af ólíkum aðstæðum
- að stuðla að samþættingu nærþjónustu við íbúa sveitarfélaga
- að tryggja að eitt stjórnsýslustig beri ábyrgð á stærstum hluta almennrar félagsþjónustu, bæta samhæfingu og draga úr skörun ábyrgðarsviða stjórnsýslustiga
- að tryggja góða nýtingu fjármuna
- að styrkja sveitarstjórnarstigið
- að einfalda verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.
Um er að ræða eina viðamestu endurskipulagningu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga frá flutningi grunnskólans árið 1996.
Heildarsamkomulagið er birt á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga og þar er jafnframt að finna ítarlegar upplýsingar um yfirfærsluna.
Undirbúningur hjá Garðabæ
Hjá Garðabæ hefur verið að undirbúningi þess að taka við málaflokknum um nokkurt skeið. Stýrihópur sem félagsmálastjóri leiðir, heldur utan um vinnuna en einnig hafa verið skipaðir fimm vinnuhópar til að vinna að afmörkuðum verkefnum innan stjórnsýslunnar.
Kynning félagsmálastjóra á undirbúningsvinnu vegna yfirfærslu á málefnum fatlaðra, frá því í október 2010 (pdf-skjal).