30. okt. 2009

Sköpun úr verðlausum efnum

Nemendur úr leik- og grunnskólum Garðabæjar hafa undanfarið unnið að gerð leikfanga úr verðlausum efnivið í vinnusmiðju á Garðatorgi
  • Séð yfir Garðabæ
Í september síðastliðnum var haldin námstefna fyrir leik- og grunnskólakennara um leikfangagerð úr verðlausum efnum á vegum Hönnunarsafns Íslands og Hafnarborgar, menningar- og listamiðstöðvar Hafnarfjarðar. IKEA og SORPA styrktu verkefnið.

Á námstefnunni fjallaði einn fremsti sérfræðingur Indlands á sviði hefðbundinna leikfanga, Sudarshan Khanna prófessor, um leikfangagerð úr einföldum og endurnýttum efniviði. Í kjölfarið var svo verkleg kennsla þar sem um 200 kennarar gerðu nokkur einföld en heillandi leikföng byggð á hönnun og hugmyndafræði Sudarshans.

Á næstu vikum þar á eftir komu nemendur úr öllum grunn- og leikskólum Garðabæjar í efnisveitu og vinnusmiðju á Garðatorgi og unnu áfram með ýmsar af hugmyndum Sudarshans Khanna. Fleiri hönnuðir voru einnig fengnir til liðs við verkefnið; hönnunarteymi frá „Ráðuneytinu" „og Lúka Design“ og komu þeir með hugmyndir að nokkrum áhugaverðum leikföngum og leikjum til viðbótar úr mismunandi efnivið.

Einfalt og umhverfisvænt

Afrakstur þessarar vinnu í efnisveitunni er einungis byrjunin á vinnuferli fyrir Listadaga 2010 þar sem þemað verður „að leika sér“. Í efnisveitunni hafa nemendur þróað hugmyndir út frá efni sem ekki er lengur not fyrir. Hugmyndin er að útvíkka hugsanagang barna og kenna þeim að sjá möguleikana í nýjum efnivið. Umbreyting verðlausra hluta í leikföng er skapandi  og gefur sköpunargleði og fagurfræði barnanna færi á að njóta sín. Hugmyndin er að börnin og við öll verðum meðvitaðri um umhverfi okkar og nærsamfélag með því að skoða betur hverju við köstum burt og hvað má nýta.

Undrunin og uppgötvunin

Þegar börnin skapa sín eigin leikföng hefst lærdómsríkt ferli. Í gerð leikfanganna felst tækifæri til þess að uppgötva og börnin þurfa sjálf að finna út hvað virkar og hvað ekki. Það er t.d. ekki sama hve langt bandið er eða hve stórt dósalokið við gerð hljóðfæris og pappírsfuglinn flýgur aðeins ef hann er af ákveðinni stærð. Börn hafa oftast gaman af að prófa sig áfram og gleðin er mikil þegar hluturinn loksins virkar. Mistökin eru jafn mikilvæg og árángurinn því þau eru lærdómsrík. Börnin eiga frá náttúrunnar hendi auðvelt með að búa til heillandi heim úr litlum efnivið. Oft þarf ekki annað en smá hvatningu og útkoman er uppspretta mikillar gleði og leiks sem varir jafnvel tímunum saman.

Í almanaki SORPU fyrir árið 2010 verða uppskriftir af nokkrum leikfanga Sudarshans sem einfalt er að gera heima við. Þar verða líka myndir af börnunum að vinna að leikfangagerðinni. Einnig er áhugavert að skoða heimasíðuna www.sudarshankhanna.com.

 

Fleiri myndir eru t.d. á vef Bæjarbóls og á vef Hofsstaðaskóla.

 Góða skemmtun!