30. jún. 2009

Samningur um atvinnuátak

Garðabær, Skógræktarfélag Íslands og Skógræktarfélag Garðabæjar hafa gert með sér samning um atvinnuátaksverkefni þar sem skipulögð hafa verið störf fyrir 100 manns auk verkstjórnar í tæpa tvo mánuði sumarið 2009.
  • Séð yfir Garðabæ

Garðabær, Skógræktarfélag Íslands og Skógræktarfélag Garðabæjar hafa gert með sér samning um atvinnuátaksverkefni þar sem skipulögð hafa verið störf fyrir 100 manns auk verkstjórnar í tæpa tvo mánuði sumarið 2009. Samningurinn er hluti af Atvinnuátaksverkefni sem Skógræktarfélag Íslands hefur haft frumkvæði að í samvinnu við Vinnumálastofnun, ríkissjóð og sveitarfélög. 


Á myndinni hér til hliðar eru frá vinstri: Erla Bil Bjarnardóttir garðyrkjustjóri, Gunnar Einarsson bæjarstjóri, Magnús Gunnarsson formaður SÍ og Erla Björk Waage verkefnastjóri Atvinnuátaks SÍ.


Sumarvinna ungmenna
Samningurinn var samþykktur á fundi bæjarráðs Garðabæjar 9. júní sl. og undirritaður í dag þriðjudaginn 30. júní.  Samningstímabilið er  frá 2. júní - 31. júlí 2009. Samningur þessi veitir stórum hluta sumarstarfsfólks í Garðabæ vinnu í sumar, um 100 ungmenni úr Garðabæ taka þátt í verkefninu ásamt 8 verkstjórum og 1 yfirverkstjóra.


Samkvæmt samningnum er gert ráð fyrir að Garðabær beri ábyrgð á ráðningu þess starfsfólks sem þarf til að sinna verkefnunum, en Atvinnuátaksverkefni Skógræktarfélag Íslands greiðir fyrir aðföng sem þarf til að sinna verkefnunum á svæðunum, s.s. aðstöðu fyrir starfsfólk, ofaníburð í stíga, plöntur o.fl.


Fjölbreytt verkefni
Skógræktarfélag Garðabæjar kemur að verkefninu í Garðabæ með því að skipuleggja fjölbreytt verkefni er falla undir átakið á skógræktar- og útivistarsvæðum félagsins og í Heiðmerkurhluta Garðabæjar. 


Meðal verkefna sem ráðist er í er ruslatínsla á svæðunum, hefting útbreiðslu lúpínu, gróðursetning trjáplantna, ofaníburður og annað viðhald útivistarstíga,  gerð útivistar- og útsýnisstígs á Smalaholti og gamlar gaddavírsgirðingar eru fjarlægðar.  Einnig er áætlað að stika út legu ,,Græna stígsins“ í sumar auk margvíslegra annarra verkefna.


Græni trefilinn
Starfsvettvangur skógræktarfélaganna er í Græna treflinum sem umliggur höfuðborgarsvæðið ofan byggða. Þar er í undirbúningi nýr malbikaður göngustígur sem hefur fengið vinnuheitið ,,Græni stígurinn „ . Stígurinn verður 3 metrar  á breidd og mun liggja frá Kaldárseli í Hafnarfirði og þræða áhugaverðar náttúruperlur og útivistarsvæði í skjóli vaxandi skógarteiga upp undir Esjuhlíðar, alls um 50 km samfellda leið.

Græni stígurinn er í skipulagsferli, og er því ekki gert ráð fyrir að hann verði lagður í Garðabæ í ár, en vonast er til þess að hann komist til framkvæmda í áföngum á næstu árum. Af honum er um 9,5 km innan lögsögu Garðabæjar eða um 20 % stígsins.


Skógur og útivist
Atvinnuátakið skógur og útivist er verkefni sem hófst á vormánuðum  2009 og stendur til og með ársins 2011 og  hefur hlotið styrk frá ríkissjóði.  Átakið mun veita fjölda fólks sumarvinnu við undirbúning og snyrtingu svæðanna sem  Græni stígurinn mun liggja um. Græni stígurinn mun efla útivist almennings og auðvelda aðgengi allra að útivist um svæðin ofan byggðar.