23. jún. 2008

Góð niðurstaða ársreiknings

Niðurstaða ársreiknings Garðabæjar fyrir árið 2007 sýnir að fjárhagsstaða bæjarsjóðs og fyrirækja hans er traust. Niðurstaða rekstrarreiknings er jákvæð að fjárhæð 1.225 m.kr. Ársreikningurinn var lagður fram til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar fimmtudaginn 17. apríl sl.
  • Séð yfir Garðabæ

Niðurstaða ársreiknings Garðabæjar fyrir árið 2007 sýnir að fjárhagsstaða bæjarsjóðs og fyrirækja hans er traust. Niðurstaða rekstrarreiknings er jákvæð að fjárhæð 1.225 m.kr. Ársreikningurinn var lagður fram til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar fimmtudaginn 17. apríl sl.

Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu 2007 námu 5.556 m.kr og eru þær 420 mkr hærri en áætlun ársins gerði ráð fyrir. Rekstrarkostnaður nam 3.989 m.kr og var hann 96 m.kr. hærri en samkvæmt áætlun. Niðurstaða rekstrarreiknings er jákvæð að fjárhæð 1.225 m.kr, en áætlun gerði ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu að fjárhæð 730 m.kr Almennt er niðurstaða ársreiknings sú að rekstur málaflokka og stofnana bæjarins hafi verið innan fjárheimilda á árinu 2007.

Frávik frá áætlun skýrist að mestu af hærri skatttekjum og hærri vaxtatekjum en áætlun gerði ráð fyrir, auk þess sem söluhagnaður reyndist 165 m.kr hærri en reiknað var með.

Veltufé frá rekstri sem hlutfall af tekjum er 21,2% þegar litið er til bæjarsjóðs og fyrirtækja hans. Fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir að veltuhlutfallið yrði 18,9% og sýnir niðurstaðan vel hversu styrk staða bæjarsjóðs er.

Í lykiltölum kemur fram að skuldir og skuldbindingar á hvern íbúa lækka úr 419 þ.kr. í 400 þ. kr. frá árinu 2006 til 2007, en engin ný langtímalán voru tekin á árinu. Einnig kemur fram í lykiltölum að eignir sveitarfélagsins hækka að virði úr 831 þ.kr á íbúa í 953 þ.kr. á íbúa.