8. des. 2016

Framkvæmt fyrir 1,7 milljarð

Auknu fjármagni verður varið til innra starfs leikskóla og grunnskóla Garðabæjar á árinu 2017. Stærstu framkvæmdir ársins verða endurbætur á Ásgarðslaug og einnig verður gert átak til að bæta aðstöðu til knattspyrnuiðkunar.
  • Séð yfir Garðabæ

Auknu fjármagni verður varið til innra starfs leikskóla og grunnskóla Garðabæjar á árinu 2017. Hvatapeningar hækka upp í 32000 krónur og frá næsta ári verður hægt að nýta þá vegna tónlistarnáms. Stærstu framkvæmdir ársins verða endurbætur á Ásgarðslaug og einnig verður gert átak til að bæta aðstöðu til knattspyrnuiðkunar.

Fjárhagsáætlun Garðabæjar fyrir árin 2017-2020 var samþykkt á fundi bæjarstórnar 1. desember sl. Áætlunin gerir ráð fyrir því að rekstrarniðurstaða A-sjóðs verði jákvæð sem nemur 103 milljónum króna og að A og B sjóðir skili samanlagt rúmlega 430 milljóna króna rekstrarafgangi.

Fjölmargar gagnlegar ábendingar

Íbúar Garðabæjar tóku virkan þátt í gerð fjárhagsáætlunarinnar en alls bárust 137 ábendingar um það sem íbúar vilja leggja áherslu á. Meðal annars komu fram ábendingar um að auka fjármagn til leikskóla, bæta almenningssamgöngur til og frá Álftanesi, halda gjaldskrárhækkunum í lágmarki og endurbætur á opnum svæðum. Farið var yfir allar ábendingarnar sem bárust á milli umræðna sem skilaði sér í nokkrum breytingum á áætluninni, þ.á.m. hvað varðar aukið fjármagn til skóla. Ábendingarnar verða áfram til skoðunar og geta einhverjar þeirra rúmast innan fjárveitinga til viðhalds og búnaðarkaupa.

Aukin mönnun í leikskólum

Aukningin til leikskóla nemur 48 milljónum og er m.a. ætluð til að mæta þörf fyrir aukna mönnun þar sem börn koma nú frá 12 mánaða aldri inn á leikskólana. Einnig hækkar sú upphæð sem leikskólastjórar hafa til sérstakra verkefna. Aukningin til grunnskóla nemur 50 milljónum og er ætluð til ýmissa verkefna, sem útfærð verða nánar í samráði við skólastjórnendur og trúnaðarmenn kennara. Þar er m.a. horft til þess að í núverandi kjarasamningum kennara er búinn til farvegur fyrir greiðslur vegna tímabundinna aðstæðna sem hafa áhrif á starfsmanninn og vinnuframlag hans.
Breytingar á reglum um hvatapeninga eru einnig í samræmi við ábendingar sem bárust. Hvatapeningar hækka úr 30 þúsund krónum í 32 þúsund krónur sem er talsvert umfram vísitölu. Þá var ákveðið að setja fimm milljónir til að efla almenningssamgöngur á Álftanesi en að útfærslu þess verður unnið með rýnihópa íbúa. Einnig var ákveðið að fjölga grenndargámum og strætóskýlum og að gjaldskrár leikskóla og tómstundaheimila hækki um 2,4% í stað 3,9% eins og gert var ráð fyrir við fyrri umræðu.

Knattspyrnuvellir og endurbætur á sundlaug

Miklar framkvæmdir verða á árinu, alls fyrir 1,7 milljarð króna samkvæmt áætluninni. Stærsta einstaka framkvæmd ársins er endurbætur á Ásgarðslaug en kostnaður við þær á árinu 2017 er áætlaður 600 milljónir króna. 260 milljónum króna verður varið til æfingavalla við Ásgarð og 150 milljónum til æfingavalla og annarrar aðstöðu í nýjum bæjargarði. Þá verður 60 milljónum varið til búsetuúrræða fyrir fatlað fólk. Einnig má nefna að 460 milljónir króna fara til gatnaframkvæmda og var sú upphæð hækkuð umtalsvert á milli umræðna. Nýi útivistarstígurinn að Vífilsstaðavatni verður malbikaður á árinu og eru 20 milljónir áætlaðar í það verkefni. Áfram verður unnið að byggingu Urriðaholtsskóla sem er ráðgert að taka í notkun á árinu 2017.

Þó nokkrar ábendingar bárust um þörf á stækkun á húsnæði Álftanesskóla. Gert er ráð fyrir að á næsta ári verði unnið að hönnun viðbyggingar við skólann.

Á þriggja ára áætlun 2018-2020 er gert ráð fyrir að verja alls 880 milljónum króna til skólahúsnæðis. Einnig er ráðgert að hefja framkvæmdir við gerð fjölnota íþróttahúss í Vetrarmýri en nú standa yfir viðræður við ríkið um kaup á landi Vífilsstaða.

Fjárhagsstaða Garðabæjar er áfram sterk. Skuldir eru hóflegar og langt undir viðmiðunarmörkum samkvæmt sveitarstjórnarlögum en þar er mælt fyrir um að skuldir megi ekki vera hærri en sem nemur 150% af reglulegum tekjum. Áætlunin gerir ráð fyrir að skuldahlutfall í árslok 2017 verði 93,6%.

Öllum sem sendu inn ábendingu við gerð áætlunarinnar eru sendar sérstakar þakkir. Þessi tilraun við að leita til íbúa tókst afar vel og hefur verið leitast við að bregðast við þeim ábendingum sem bárust eins og unnt er.

Gunnar Einarsson,
bæjarstjóri

Þessi grein birtist fyrst í Garðapóstinum 8. desember 2016.