30. jún. 2015

Nýtt svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins til 2040 tekur gildi

Nýtt svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins, Höfuðborgarsvæðið 2040, hefur verið samþykkt í öllum sveitarstjórnum á höfuðborgarsvæðinu og staðfest af Skipulagsstofnun. Með nýju svæðisskipulagi tekur jafnframt ný vatnsverndarsamþykkt gildi með breyttri skilgreiningu vatnsverndarsvæða. Svæðisskipulagið var undirritað mánudaginn 29. júní af öllum framkvæmdastjórum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu ásamt forstjóra Skipulagsstofnunar.
  • Séð yfir Garðabæ

Nýtt svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins, Höfuðborgarsvæðið 2040, hefur verið samþykkt í öllum sveitarstjórnum á höfuðborgarsvæðinu og staðfest af Skipulagsstofnun. Með nýju svæðisskipulagi tekur jafnframt ný vatnsverndarsamþykkt gildi með breyttri skilgreiningu vatnsverndarsvæða.  Svæðisskipulagið var undirritað mánudaginn 29. júní af öllum framkvæmdastjórum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu ásamt forstjóra Skipulagsstofnunar.

Sameiginleg stefna sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu

Höfuðborgarsvæðið 2040 er sameiginleg stefna sveitarfélaganna Garðabæjar, Hafnarfjarðarkaupstaðar, Kjósarhrepps, Kópavogsbæjar, Mosfellsbæjar, Reykjavíkurborgar og Seltjarnarnesbæjar um náið samstarf, skipulagsmál og hagkvæman vöxt svæðisins næstu 25 árin, enda er höfuðborgarsvæðið eitt búsetusvæði, einn atvinnu- og húsnæðismarkaður með sameiginleg grunnkerfi, útivistarsvæði, auðlindir og náttúru. Hryggjarstykkið í stefnunni er Borgarlína, nýtt hágæða almenningssamgöngukerfi sem tengir kjarna sveitarfélaganna og flytur farþega með skjótum og öruggum hætti um höfuðborgarsvæðið.

Á Íslandi er einungis eitt borgarsvæði og sem slíkt gegnir höfuðborgarsvæðið veigamiklu hlutverki sem miðstöð stjórnsýslu, menntunar og menningar fyrir landið allt. Í nútímasamfélagi, þar sem fólk, fyrirtæki og fjármagn eru hreyfanleg, hafa öflug borgarsvæði sífellt meira vægi sem drifkraftur nýsköpunar og nýrra tækifæra. Það er lykilatriði í samkeppnisstöðu landsins að höfuðborgarsvæðið þróist í nútímalegt borgarsamfélag með alþjóðlegu yfirbragði þar sem lífskjör og tækifæri verði sambærileg við bestu borgir.

Síðustu áratugi hefur höfuðborgarsvæðið verið í örum vexti og byggðin dreifst um óvenju stórt svæði. Fjölgun íbúa mun halda áfram og árið 2040 verða þeir farnir að nálgast 300.000, gangi spár eftir. Með auknum vexti blasa við flóknar áskoranir, fyrirséðar og ófyrirséðar, sem íbúar svæðisins standa frammi fyrir og er stefnan Höfuðborgarsvæðið 2040 mótuð til að leiðbeina við úrlausn þeirra. Lykilatriði í stefnunni er að sá vöxtur verði hagkvæmur og ekki verði gengið á umhverfisgæði þeirra sem þar búa fyrir. Það er því nauðsynlegt að fyrirsjáanlegri fólksfjölgun verði mætt án þess að bílaumferð aukist í sama hlutfalli og án þess að óbyggt land verði brotið í sama mæli og gert var síðustu áratugi.

Borgarlínan - nýtt léttlestar- eða hraðvagnakerfi

Borgarlínan verður nýtt léttlestar- eða hraðvagnakerfi sem flytur farþega með skjótum og öruggum hætti um höfuðborgarsvæðið. Þannig myndast samgöngu- og þróunarás sem tengir sveitarfélögin. Borgarlínan verður því raunhæfur valkostur í samgöngum og mun gegna lykilhlutverki við að breyta ferðavenjum. Meðfram Borgarlínu verða eftirsóknarverð uppbyggingarsvæði fyrir íbúa og atvinnulíf. Farþegagrunnur almenningssamgangna verður því styrktur og þannig skapast skilyrði fyrir bætta þjónustu. Borgarlína og samgöngumiðuð uppbygging sem beint er á kjarna víðsvegar um höfuðborgarsvæðið mun styrkja öll hverfi. Álag á miðborgina minnkar eftir því sem spennandi svæðum fjölgar sem eru tengd hágæða almenningssamgöngum.

Heildarendurskoðun vatnsverndarsvæða fyrir höfuðborgarsvæðið

Samhliða svæðisskipulagsvinnu hafa sveitarfélögin unnið að heildarendurskoðun vatnsverndarsvæða fyrir höfuðborgarsvæðið, en neysluvatnsauðlindin er sameiginleg fyrir mest allt svæðið. Í þeirri vinnu var í fyrsta sinn beitt grunnvatns- og rennslislíkani við afmörkun verndarsvæða. Markmiðið er að tryggja hámarkshollustu neysluvatns á höfuðborgarsvæðinu til framtíðar með því að koma í veg fyrir óæskileg áhrif af völdum athafna á vatnsverndarsvæðum. Með því verður tryggt eins og frekast er unnt að íbúar höfuðborgarsvæðisins hafi alltaf þau lífsgæði að geta gengið að hreinu neysluvatni vísu.

Framfylgd á stefnu

Hið gjöfula samstarf sem lagður er grunnur að í nýju svæðisskipulagi verður drifkraftur fyrir farsæla uppbyggingu nútíma borgarsvæðis þar sem unnið verði að sjálfbærri þróun. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eru ólík og mikilvægt er að þau fóstri sín sérkenni til að allir geti fundið byggð við sitt hæfi. Þannig verði skapaður frjósamur jarðvegur sem laði það besta fram á svæðinu öllu. Höfuðborgarsvæðið 2040 er virk áætlun til að ná fram sameiginlegri sýn sveitarfélaganna um hagkvæman vöxt svæðisins. Stefnan sem sett er fram með leiðarljósum, markmiðum og aðgerðum, er almennur leiðarvísir við mótun og þróun byggðar á höfuðborgarsvæðinu sem þarf að útfæra í aðalskipulögum sveitarfélaga.

Framfylgd á stefnu Höfuðborgarsvæðisins 2040 er í höndum svæðisskipulagsnefndar, skrifstofu SSH og sveitarfélaganna. Til að fylgja stefnunni eftir verða lagðar fram fjögurra ára þróunaráætlanir, þar sem koma fram samræmdar áætlanir sveitarfélaganna í uppbyggingu og aðgerðir til að ná fram settum markmiðum. Sveitarfélögin hafa þegar hafið vinnu við Þróunaráætlun höfuðborgarsvæðisins 2015-2018. Verið er að ýta fyrstu aðgerðunum úr vör og snúa þær að:

- undirbúningi Borgarlínu og þróun allra samgöngukerfa á höfuðborgarsvæðinu í samvinnu við Vegagerðina,
- uppsetningu á mælaborði sem sýnir þróun helstu lykiltalna og
- sérstökum samráðshópi sem skipaður hefur verið um vatnsvernd og vatnsnýtingu.

Á vef Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu má sjá nánari upplýsingar um svæðisskipulagið í frétt með myndum og fylgigögnum.