31. mar. 2015

Sterk fjárhagsstaða og góð afkoma

Niðurstaða ársreiknings Garðabæjar fyrir árið 2014 sýnir vel sterka fjárhagsstöðu bæjarins. Rekstrarniðurstaða er jákvæð um 482 m.kr. en áætlun gerði ráð fyrir rekstrarafgangi að fjárhæð 159 m.kr. Þessa góðu niðurstöðu má fyrst og fremst rekja til hærri tekna en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir, sem skýrist m.a. af fjölgun íbúa umfram spár og lægri fjármagnsgjalda vegna lágrar verðbólgu. Ársreikningurinn var lagður fram í bæjarráði Garðabæjar í dag, þriðjudaginn 31. mars 2015
  • Séð yfir Garðabæ

Niðurstaða ársreiknings Garðabæjar fyrir árið 2014 sýnir vel sterka fjárhagsstöðu bæjarins. Rekstrarniðurstaða er jákvæð um 482 m.kr. en áætlun gerði ráð fyrir rekstrarafgangi að fjárhæð  159 m.kr. Þessa góðu niðurstöðu má fyrst og fremst rekja til hærri tekna en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir, sem skýrist m.a. af fjölgun íbúa umfram spár og lægri fjármagnsgjalda vegna lágrar verðbólgu.  Ársreikningurinn var lagður fram í bæjarráði Garðabæjar í dag, þriðjudaginn 31. mars 2015, og er aðgengilegur hér á vef Garðabæjar.

Góð niðurstaða staðfestir traustan rekstur Garðabæjar og gott jafnvægi rekstrargjalda í samanburði við áætlanir.   Rekstrartekjur ársins námu 10.724 m.kr. og rekstrargjöld með fjármagnsliðum voru 10.242 m.kr.. Niðurstaðan er því jákvæð sem nemur 482 m.kr.  Þrátt fyrir það eru álögur á íbúa lágar í Garðabæ en álagningarhlutfall útsvars er  13,7% sem er með því lægsta sem gerist á landinu.
Stærsti liðurinn í rekstri bæjarins er laun og launatengd gjöld sem námu 5.239 m.kr. Stærsti málaflokkurinn er fræðslu- og uppeldismál en til hans er varið 4.702 m.kr..   Tæplega  1.200 m.kr. fara til íþrótta- og æskulýðsmála og 975 m.kr. í félagsþjónustu.

Framkvæmdir síðasta árs námu samtals 1.573 m.kr. en áætlun gerði ráð fyrir 1.446 m.kr. Stærstu framkvæmdir ársins voru bygging bílatæðakjallara á Garðatorgi fyrir um 407 m.kr., framkvæmdir við stækkun Hofsstaðaskóla og endurbætur í grunn- og leikskólum bæjarins fyrir tæpar 300 m.kr.  Þá námu framkvæmdir við gatnagerð um 420 m.kr.. 

Allar kennitölur í rekstri staðfesta fjárhagslegan styrk Garðabæjar. Veltifjárhlutfall er 0,63 og eiginfjárhlutfall  54%. Skuldahlutfall hefur lækkað, er 93% en var 98% árið 2013. Langtímaskuldir við lánastofnanir og leiguskuldir nema samtals 5.717 m.kr. samanborið við 5.804 m.kr. árið 2013.  Framlegðarhlutfall er 13%. 

Eignir nema samtals 21.551 m.kr. árið 2014 og hafa hækkað um 989 m.kr. milli ára. Veltufé frá rekstri er 1.393 m.kr. en var 1.576 m.kr. árið 2013. 

Íbúar Garðabæjar voru 14.450 þann 1. desember 2014 samanborið við 14.137 árið áður sem gerir íbúafjölgun um 2,2%.

Ársreikningur Garðabæjar (pdf-skjal)