23. jan. 2015

Ánægja með þjónustu Garðabæjar

Garðabær fær hæstu einkunn allra sveitarfélaga í svörum við fjórum spurningum af tólf þar sem spurt er hversu ánægð(ur) eða óánægð(ur) viðkomandi er með ýmsa málaflokka og þjónustu í nýrri árlegri þjónustukönnun Capacent. Einkunn Garðabæjar er í öllum tilfellum hærri en heildarmeðaltal sveitarfélaga. Könnunin var gerð haustið 2014 og þar er viðhorf íbúa til þjónustu stærstu sveitarfélaga landsins mælt.
  • Séð yfir Garðabæ

Garðabær fær hæstu einkunn allra sveitarfélaga í svörum við fjórum spurningum af tólf þar sem spurt er hversu ánægð(ur) eða óánægð(ur) viðkomandi er með ýmsa málaflokka og þjónustu í nýrri árlegri þjónustukönnun Capacent.  Í fjórum tilfellum er Garðabær í 2. sæti og er því í 1.-2. sæti í átta af tólf spurningum. Einkunn Garðabæjar er í öllum tilfellum hærri en heildarmeðaltal sveitarfélaga. Könnunin var gerð haustið 2014 og þar er viðhorf íbúa til þjónustu stærstu sveitarfélaga landsins mælt.

Ánægja með grunnskóla og þjónustu við barnafjölskyldur

Garðabær fær hæstu einkunn sveitarfélaga í spurningum um þjónustu grunnskóla, þjónustu við barnafjölskyldur, í spurningu um skipulagsmál og hversu ánægðir íbúar eru með Garðabæ sem stað til að búa á.    Í spurningum um þjónustu leikskóla, gæði umhverfis í nágrenni við heimili, þjónustu í tengslum við sorphirðu og þjónustu sveitarfélagsins á heildina litið er Garðabær í 2. sæti og í spurningu um þjónustu við eldri borgara í 3. sæti.  
Hæsta einkunnin sem Garðabær fær er 4, 5 (á skalanum 1-5) fyrir spurninguna um ánægju með Garðabæ sem stað til að búa á og þar hækkar einkunnin frá fyrri könnun.  Meðaltal sveitarfélaga fyrir þessa spurningu er 4,2.  Auk þess fær Garðabær hæstu einkunn og er langt yfir meðaltali þar sem spurt var hversu líklegt eða ólíkegt er að viðkomandi mæli með þjónustu sveitarfélagsins við vini eða ættingja. 
Í könnunni kemur fram að þeir sem nýta sér þjónustuna þar sem spurt er um tiltekna þjónustuþætti eru í mörgum tilfellum ánægðari með þá en þeir sem nýta þá ekki.  Þetta á t.d. við um þjónustu við barnafólk, þjónustu leikskóla, aðstöðu til íþróttaiðkunar og þjónustu við eldri borgara.

Hvatning til að gera betur

Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar er á heildina litið ánægður með niðurstöðurnar.  ,,Farið verður í að greina niðurstöðurnar nánar hjá Garðabæ, kynna þær og rýna betur í ýmsa þætti könnunarinnar og athuga hvar má gera betur.  Niðurstöður úr spurningum eru mjög sambærilegar og við síðustu könnun árið 2013 og í könnunini kemur fram eins og síðast marktækur munur á svörum þeirra sem búa á Álftanesi og þeirra sem búa annars staðar þar sem þeir fyrrnefndu gefa þjónustunni lægri einkunn.  Það er ástæða til að skoða hvaða þættir spila þar inn í og bæta úr. Jafnframt kemur fram að 14 % íbúa eru óánægðir með þjónustu fatlaðra og þar er greinilega verk að vinna við að skoða þann málaflokk enn betur og bæta þjónustuna.  Niðurstöðurnar eru í meginatriðum ánægjulegar fyrir Garðabæ og gott að vita hvar við stöndum í samanburði við aðra. Þær eru einnig vitnisburður um að starfsmenn Garðabæjar leggja sig fram við að veita íbúum góða þjónustu“.

Skýrsla Capacent fyrir Garðabæ - þjónustukönnun 2014