30. apr. 2018

Lokað fyrir aðgang að opnu bókhaldi Garðabæjar

Í fréttaflutningi fjölmiðla síðastliðna daga hefur komið fram að í svokölluðu „opnu bókhaldi“, sem birt er á vefsíðum tiltekinna sveitarfélaga, hafi verið unnt í takmarkaðan tíma að nálgast tilteknar upplýsingar er áttu ekki að vera aðgengilegar þar. 

  • Séð yfir Garðabæ
    Séð yfir Garðabæ

Í fréttaflutningi fjölmiðla síðastliðna daga hefur komið fram að í svokölluðu „opnu bókhaldi“, sem birt er á vefsíðum tiltekinna sveitarfélaga, hafi verið unnt í takmarkaðan tíma að nálgast tilteknar upplýsingar er áttu ekki að vera aðgengilegar þar. Átti þetta meðal annars við um Garðabæ, er opnaði bókhald sveitarfélagsins með þessum hætti á síðasta ári í samstarfi við endurskoðunarfyrirtækið KPMG. 

Um leið og starfsmönnum Garðabæjar varð þetta ljóst var aðgengi að opnu bókhaldi á vef bæjarins lokað tafarlaust. 
Nú þegar er hafin vinna við það hjá Garðabæ að greina hvaða upplýsingar er um að ræða og verður allt kapp lagt á að ljúka þeirri vinnu sem fyrst. 
Rétt er að taka fram að umræddar upplýsingar voru ekki augljósar eða beint aðgengilegar.

Tilgangur þess að gera bókhald Garðabæjar aðgengilegt á vef bæjarins var að veita íbúum, fjölmiðlum og öðrum sem láta sig rekstur sveitarfélaga varða, aukinn og einfaldari aðgang að rekstrarupplýsingum í anda gagnsæis og opins lýðræðis. Mikil vinna fór í undirbúning þessa með það að skýru markmiði að tryggja að á vef bæjarins birtust aðeins þær upplýsingar sem nauðsynlegar væru í þessu ljósi. Þá var lögð áhersla á að kröfum laga um persónuvernd væri fullnægt. 

Garðabær lítur málið alvarlegum augum og leggur áherslu á að það verði upplýst sem allra fyrst. Þá er rétt að taka fram að bókhaldið verður ekki gert aðgengilegt á ný fyrr en tryggt er að mál af þessu tagi komi ekki upp aftur.