10. apr. 2018

Undirritun nýs aðalskipulags Garðabæjar

Föstudaginn 6.apríl sl. var nýtt aðalskipulag Garðabæjar undirritað af Gunnari Einarssyni bæjarstjóra Garðabæjar og Ásdísi Hlökk Theódórsdóttur forstjóra Skipulagsstofnunar. Nýtt aðalskipulag Garðabæjar gildir fram til ársins 2030.  Aðalskipulagið er það fyrsta sem í gildi er fyrir sveitarfélagið eftir að Garðabær og Álftanes sameinuðust um áramótin 2012 og 2013.

 • Aðalskipulag Garðabæjar
  Aðalskipulag Garðabæjar
 • Aðalskipulag Garðabæjar
  Aðalskipulag Garðabæjar
 • Aðalskipulag Garðabæjar
  Aðalskipulag Garðabæjar
 • Aðalskipulag garðabæjar
  Aðalskipulag Garðabæjar

Föstudaginn 6.apríl sl. var nýtt aðalskipulag Garðabæjar undirritað af Gunnari Einarssyni bæjarstjóra Garðabæjar og Ásdísi Hlökk Theódórsdóttur forstjóra Skipulagsstofnunar.  Nýtt aðalskipulag Garðabæjar gildir fram til ársins 2030. Í kjölfar undirritunar hlýtur aðalskipulagið staðfestingu með birtingu í Stjórnartíðindum.  Aðalskipulagið er það fyrsta sem í gildi er fyrir sveitarfélagið eftir að Garðabær og Álftanes sameinuðust um áramótin 2012 og 2013.

Um leið falla eldri aðalskipulagsáætlanir úr gildi en þær voru Aðalskipulag Garðabæjar 2004-2016 og Aðalskipulag Álftaness 2005-2024.

Vinna við gerð aðalskipulagsins hófst fyrri hluta árs 2013. Þá var hafist handa við að velja aðalskipulagsráðgjafa og niðurstaða þess ferlis var sú að ráðgjafateymi Teiknistofu arkitekta, landslagsarkitektastofunnar Landmótunar og verkfræðistofunnar Eflu var valið til verksins. Árni Ólafsson arkitekt hjá Teiknistofu Arkitekta og fyrrum skipulagsstjóri Akureyrar fór fyrir ráðgjafateyminu.  Arinbjörn Vilhjálmsson skipulagsstjóri Garðabæjar leiddi vinnuna fyrir hönd bæjarins.

Meðfylgjandi myndir með frétt voru teknar við undirritunina í Golfskála Odds við Urriðavöll í Garðabæ.  Frá vinstri:  Ásdís Hlökk Theódórsdóttir forstjóri Skipulagsstofnunar, Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar og Sigurður Guðmundsson formaður skipulagsnefndar Garðabæjar.

Aðalskipulag Garðabæjar 2016-2030 - norðuruppdráttur (pdf-skjal)

Aðalskipulag Garðabæjar 2016-2030 - suðuruppdráttur (pdf-skjal)

Aðalskipulag Garðabæjar 2016-2030 - umhverfisskýrsla (pdf-skjal)

Aðalskipulag Garðabæjar 2016-2030 - greinargerð (pdf-skjal)

Stefnumótunarvinna og fundir með hagsmunaðilum og íbúum

Fyrsta stig aðalskipulagsferlisins fólst í því að vinna verkefnislýsingu þar sem markmið verkefnisins var skilgreint. Í millitíðinni, vorið 2014 voru sveitarstjórnarkosningar og ný skipulagsnefnd var skipuð undir forystu Sigurðar Guðmundssonar. Aðrir sem sitja í nefndinni eru þau Lúðvík Steinarsson, Guðrún Dóra Brynjólfsdóttir, Súsanna Vilhjálmsdóttir og Gísli Geir Jónsson.  Skipulagslýsing lá fyrir í lok árs 2014 og boðað var til kynningarfundar í janúar 2015 þar sem lýsingin var kynnt. Í kjölfarið tók við stefnumótunarvinna og var efnt til funda með hinum ýmsu hagsmunaaðilum allt frá skátum og Skógræktarfélögum til GKG og Garðasóknar. Undir lok árs 2015 voru haldnir almennir íbúafundir bæði í Flataskóla og Álftanesskóla þar sem farið var yfir verkefnið og þá kosti sem staðið var frammi fyrir. Fundirnir voru vel sóttir og líflegir og höfðu heilmikil áhrif á mótun tillögunnar.  Það hafði m.a. þau áhrif að ákveðið var að stilla fjölda íbúða á fullbyggðu Álftanesi í hóf en rætt hafði verið um að þar mætti rýma um 1.600 íbúðir. Niðurstaðan varð sú að aðalskipulagið verði um 1.100 íbúðir. Eins var niðurstaðan sú að á framtíðar íbúðarsvæðum í Garðaholti og Setbergi verði þéttleiki byggðar í anda eldri íbúðarbyggðar í Garðabæ sem einkennist af sérbýli og húsagörðum.

Uppbygging lykilsvæða – skilgreind þróunarsvæði

Eitt af verkefnum aðalskipulagsvinnunar var að móta stefnu um uppbyggingu lykilsvæða í kjarna bæjarins. Þar voru skilgreind tvö þróunarsvæði annarsvegar á svæðinu við Lyngás og Hafnarfjarðarveg og hinsvegar í Vífilsstaðalandi. Ljóst er að á þeim svæðum felast mikilvæg tækifæri til uppbyggingar á næstu árum og mikils um vert að vel takist til við þau flóknu verkefni. Ráðist hefur verið í að vinna rammaskipulag fyrir bæði svæðin sem verður grundvöllur deiliskipulagsgerðar og annarra uppbyggingaráætlana. Á síðasta ári var efnt til samkeppni um rammaskipulag svæðisins eins og gert var árið þar á undan um svæðið við Lyngás og Hafnarfjarðarveg.

Ein mikilverðasta breytingin frá eldra aðalskipulagi sem hið nýja aðalskipulag gerir ráð fyrir er breyting á legu stofnbrautarinnar sem kölluð hefur verið Ofanbyggðarvegar. Áður var gert ráð fyrir stofnbrautinni frá Kaldárselsvegi að Arnarnesvegi í Kópavogi og þá um bakka Vífilsstaðavatns og við jaðar golfvallar GKG í Smalaholti. Nú er gert ráð fyrir því að stofnbrautin liggi um Setbergsland að Reykjanesbraut við Molduhraun þar sem hún mun tengjast framlengingu Álftanesvegar úr Engidal.

Umhverfismat tillögunnar

Hluti af gerð aðalskipulags er umhverfismat tillögunnar og hefur aðferðum þess verið beitt á öllum stigum ferlisins. Er umhverfismat sett fram í sérstakri skýrslu, umhverfisskýrslu sem fylgir aðalskipulaginu eins og lög gera ráð fyrir. 

Tillagan auglýst og samþykkt

Tillögu að aðalskipulagi var vísað til forkynningar haustið 2016 og enn var boðað til almenns íbúafundar í Flataskóla sem var vel sóttur eins og aðrir fundir sem tengdust verkefninu. Þar var fundarmönnum skipt upp í hópa og innihald tillögunnar rætt og tekið við ábendingum og hugmyndum frá almenningi. Fjöldi ábendinga bárust bæði skriflega og í gegnum vef Garðabæjar og á fundum með íbúum og öðrum hagsmunaaðilum.

Unnið var úr ábendingum og tillagan síðan lögð fram í skipulagsnefnd og bæjarstjórn og henni vísað til auglýsingar að lokinni athugun Skipulagsstofnunar.  Auglýsingin fór fram vorið 2017 og var efnt til kynningarfundar 30. maí það ár. Frestur til að skila inn athugasemdum var til 19. júní 2017. Alls bárust 55 erindi með athugasemdum auk umsagna umsagnaraðila. Nokkrar breytingar og lagfæringar voru gerðar á tillögunni í kjölfar athugasemda.

Aðalskipulag Garðabæjar 2016-2030 var samþykkt í bæjarstjórn Garðabæjar 8. október 2017. Í kjölfarið var aðalskipulagið sent til athugunar hjá Skipulagsstofnun.  Gerðar voru nokkrar lagfæringar á tillögunni í samráði við Skipulagsstofnun og var tillagan ásamt lagfæringum lögð fyrir skipulagsnefnd og bæjarstjórn en þær lagfæringar voru tæknilegs eðlis.

Sú tillaga sem nú er staðfest er dagsett 8. febrúar 2018.