11. des. 2017

Áfram mikil uppbygging í Garðabæ

Mikil uppbygging verður áfram í Garðabæ á næsta ári samkvæmt fjárhagsáætlun Garðabæjar fyrir árið 2018. Samtals verður framkvæmt fyrir um 1.875 milljónir króna og stærsta einstaka framkvæmdin er áframhaldandi uppbygging Urriðaholtsskóla en einnig er gert ráð fyrir að hefja undirbúning að uppbyggingu nýs fjölnota íþróttahúss á árinu. Hvatapeningar fyrir íþrótta- og tómstundaiðkun barna og ungmenna hækka úr kr. 32 000 kr í 50 000 kr. Áfram verður auknu fjármagni varið í leikskólastarf til að styðja við innra starf skólanna og þá verður öllum börnum 12 mánaða og eldri boðin leikskóladvöl eins og gert var í haust.
  • Séð yfir Garðabæ
Mikil uppbygging verður áfram í Garðabæ á næsta ári samkvæmt fjárhagsáætlun Garðabæjar fyrir árið 2018.  Samtals verður framkvæmt fyrir um 1.875 milljónir króna og stærsta einstaka framkvæmdin er áframhaldandi uppbygging Urriðaholtsskóla en einnig er gert ráð fyrir að hefja undirbúning að  uppbyggingu nýs fjölnota íþróttahúss á árinu.  Hvatapeningar fyrir íþrótta- og tómstundaiðkun barna og ungmenna hækka úr kr. 32 000 kr í 50 000 kr.  Áfram verður auknu fjármagni varið í leikskólastarf til að styðja við innra starf skólanna og þá verður öllum börnum 12 mánaða og eldri boðin leikskóladvöl eins og gert var í haust. 

Fjárhagsáætlun Garðabæjar fyrir árið 2018 var lögð fram til síðari umræðu og samþykkt á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar fimmtudaginn 7. desember sl. Samhliða næstu árs áætlun var jafnframt lögð fram og samþykkt þriggja ára áætlun Garðabæjar fyrir árin 2019, 2020 og 2021.  
Samkvæmt framlagðri fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir að rekstrarafgangur A-hluta bæjarsjóðs verði um 144 m.kr.  og í A og B-hluta um 510 m.kr. Veltufé frá rekstri er áætlað að verði 1.746 m.kr.  Framlegð er áætluð 14,4% en er 13,4% samkvæmt áætlun 2017. 

Fjárhagsstaðan er sterk og skuldir hóflegar


Fjárhagsstaða Garðabæjar er sterk, skuldir eru hóflegar og langt undir viðmiðunarmörkum samkvæmt ákvæðum sveitarstjórnarlaga en þar er mælt fyrir um að skuldir megi ekki vera hærri en sem nemur 150% af reglulegum tekjum.  Skuldahlutfall var 112,7% skv. ársreikningum Garðabæjar og Álftaness 2012, en var komið niður í 78,7% skv. ársreikningi Garðabæjar fyrir árið 2016. Í samþykktri áætlun er gert ráð fyrir að skuldahlutfall í árslok 2018  verði 81,3% og skuldaviðmið skv. fjármálareglum 65,7%. 
Álagningarhlutfall útsvars verður óbreytt eða 13,7 % og álagningarhlutfall fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði lækkar úr 0,23 % í 0,20 %.  Þá lækkar einnig álagningarhlutfall vatnsgjalds og holræsagjalds.   Leikskólagjöld hækka ekki á milli ára og frá og með haustinu 2018 verða afslættir samkvæmt gjaldskrá leikskóla tekjutengdir. 

Tekið tillit til ábendinga íbúa

Íbúar Garðabæjar gátu sent inn ábendingar í haust við gerð fjárhagsáætlunarinnar og einnig á milli umræðna.  Fjölmargar ábendingar bárust í gegnum ábendingaform á vef Garðabæjar.  Ábendingarnar voru af margvíslegum toga og vörðuðu ýmislegt í nærumhverfi bæjarins, s.s. opin svæði, göngustíga, leiksvæði, íþróttasvæði, bætingu á lýsingu o.fl.  Einnig bárust ábendingar um gjöld, umferðarmál, sorpmál, frístundir og menningarmál.  Farið var yfir allar ábendingarnar sem bárust og þegar hefur verið tekið tillit til margra þeirra auk þess sem þær verða áfram til skoðunar.  Upplýsingar um ábendingar sem bárust og stöðu þeirra verða birtar á vef Garðabæjar á næstunni.

Mikil uppbygging í bænum

Hófleg íbúafjölgun hefur verið síðustu ár í Garðabæ og samhliða hafa fylgt auknar skatttekjur.  Íbúafjölgunin hefur verið nokkuð stöðug á bilinu 1,5 – 3% og langt yfir landsmeðaltali.  Á sama tíma hafa stofnanir bæjarins getað fylgt eftir fjölguninni og veitt góða þjónustu.  Nýr samrekinn leik- og grunnskóli, Urriðaholtsskóli,  tekur til starfa í byrjun árs 2018 og þegar hefur verið ráðinn skólastjóri við skólann.  Skólinn verður tekinn í notkun í áföngum og mun leikskóladeild taka til starfa á fyrstu mánuðum ársins 2018. 

Á árinu 2018 er gert ráð fyrir framkvæmdum að fjárhæð 1.875 mkr. Stærsta einstaka framkvæmdin eru áframhaldandi framkvæmdir við Urriðaholtsskóla en um 400 mkr eru áætlaðar í uppbyggingu skólans.  Aðrar framkvæmdir við skólahúsnæði eru áætlaðar um 300 mkr og verður m.a. byrjað á viðbyggingu við Álftanesskóla.  Fjárveiting að fjárhæð 300 mkr er til að hefja undirbúning við byggingu fjölnota íþróttahúss í Vetrarmýri og lokið verður við framkvæmdir við endurbætur á sundlauginni í Ásgarði.  Þá er áætlað að verja 150 mkr til framkvæmda við bæjargarð á Hraunsholti með gerð mana,  göngustíga og leiksvæða.  Til gatna- og gangstéttarframkvæmda ásamt lagningu útivistarstíga er áætlað að verja um 710 mkr. 

Fjárhagsáætlun 2018-2021 (síðari umræða - pdf-skjal)