3. mar. 2017

Endurheimt votlendis við Kasthúsatjörn

Framkvæmd við endurheimt votlendis á Álftanesi milli Kasthúsatjarnar og Jörvavegar er lokið. Umhverfisstjóri Garðabæjar undirbjó verkefnið í samráði við Landgræðsluna og verktakafyrirtækið Loftorka sá um framkvæmdina með því að flytja mold frá efnislager til að fylla uppí framræsluskurði á svæðinu.

  • Votlendið við Kasthúsatjörn
    Votlendið við Kasthúsatjörn

Framkvæmd við endurheimt votlendis á Álftanesi milli Kasthúsatjarnar og Jörvavegar er lokið.  Verkefnið hófst formlega í lok ágúst á síðasta ári þegar nemendur úr Álftanesskóla aðstoðuðu við að taka fyrstu skóflustungurnar við að fylla mold upp í skurðinn sem var til staðar.  Við sama tækifæri voru undirritaðir tveir samningar um verkefnið.  Annars vegar á milli Garðabæjar og Landgræðslu ríkisins um stuðning við verkið og hins vegar á milli Garðabæjar og Toyota á Íslandi sem einnig lagði til fjármagn til verksins.  Sjá frétt hér frá upphafi verkefnisins.

Verkið gekk vel þrátt fyrir rigningar í vetur

Umhverfisstjóri Garðabæjar undirbjó verkefnið í samráði við Landgræðsluna og verktakafyrirtækið Loftorka sá um framkvæmdina með því að flytja mold frá efnislager til að fylla uppí framræsluskurði á svæðinu.  Verkefnið tafðist fyrst um sinn vegna rigninga síðasta haust og vetur en áætlað var að ljúka framkvæmdinni fyrir komu farfugla á svæðið.  Vegna aðstæðna var torvelt að komast með vélar um svo blautt svæði með sem minnstu raski en með góðu samstarfi verktaka og umhverfisstjóra Garðabæjar var það leyst með sem bestum hætti.  Í framhaldinu munu sérfræðingur Landgræðslunnar og umhverfisstjóri Garðabæjar fylgjast með framvindu svæðisins, t.d. hvernig og hve hratt votlendið grær eftir raskið.

Mikilvægt búsvæði fugla og plantna

Á Álftanesi hafa nú verið endurheimt votlendi á tveimur svæðum á Bessastaðanesi og við Kasthúsatjörn og verkefnin voru styrkt af Landgræðslunni.  Svæðin á Bessastaðanesi eru framræst votlendi í tveimur víkum þar sem aðallega er varpland æðarfugla.
Umhverfis Kasthúsatjörn er mjög fjölskrúðugt fuglalíf með fjölda tegunda. Endurheimt votlendisins við tjörnina er í raun stækkun á búsvæði fugla, votlendisgróðurs og annarra dýra. Umhverfisnefnd Garðabæjar lét gera rannsókn á fuglalífi á Álftanesi 2014, skýrslan Fuglar í fjörum, á grunnsævi, tjörnum og túnum árið 2014 útgefin í mars 2015.  Skýrsluna er hægt að nálgast hér.

Kasthúsatjörn er þekkt meðal fuglaskoðara fyrir tíðar heimsóknir sjaldgæfra fugla og flækinga.  Það hefur lengi staðið til að endurheimta þetta votlendi enda talið að svæðið væri mikilvægt búsvæði fugla og plantna.  Opnum skurðum á Álftanesi hefur fækkað með þessari framkvæmd, sem varðar öryggi barna í nágrenninu sem og annarra sem eiga leið um.
Áframhaldandi samstarf Garðabæjar við Toyota á Íslandi er í undirbúningi að þessu sinni um endurheimt votlendis við Urriðavatn sem er í nærumhverfi fyrirtækisins.

Á meðfylgjandi myndum með frétt:

1. Skurður fullur af vatni fyrir framkvæmd.
2. Gróðurtorfum á skurðbökkum var flett upp.
3. Búið er að fletta upp skurðbökkum, síðan moldarfyllingin ofaní skurðinn.
4. Gróðurtorfurnar lagðar ofaná skurðfyllinguna, sem gróa svo saman.
5. Vatni haldið frá með dælingu úr skurðum.
6. Dæmi um moldarfylltan skurð.