21. feb. 2017

Innra eftirlit með þjónustu við fatlað fólk og fræðslustarf

Félagsmálastjórar á höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur (í Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ og Mosfellsbæ) mynduðu samráðshóp um þjónustu við fatlað fólk þegar málaflokkurinn var færður til sveitarfélaganna í ársbyrjun 2011.
  • Séð yfir Garðabæ

Félagsmálastjórar á höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur (í Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ og Mosfellsbæ) mynduðu samráðshóp um þjónustu við fatlað fólk þegar málaflokkurinn var færður til sveitarfélaganna í ársbyrjun 2011. Hefur hann komið saman reglulega síðan. Meðal viðfangsefna hefur verið eftirlit með þjónustunni eins og kveðið er á um í lögum að sveitarfélögin skuli sinna, svonefnt innra eftirlit.

Að gefnu því tilefni sem umræður um skýrslu um Kópavogshælið hafa skapað undanfarið þykir samráðshópnum rétt að gera stuttlega grein fyrir hvernig þessu eftirliti er háttað. Framan af – og reyndar enn – höfðu sveitarfélögin eftirlit með þjónustunni með ýmsu móti, en árið 2013 var kallaður saman hópur fagfólks sem falið var að leita leiða til að efla eftirlitið með reglubundnum og samræmdum hætti. Hópurinn setti saman gæðamatslista í þessu skyni sem tekur mið af lögum og reglugerðum um málaflokkinn, svo og samningi Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks. Sveitarfélögin réðu í kjölfarið sameiginlegan starfsmann, reyndan þroskaþjálfa, til að annast eftirlitið.

Úttektir byggðar á skilgreindum gæðavísum

Starfsmaðurinn hefur allar götur síðan gert úttektir jafnt á heimilum fatlaðs fólks, skammtímavistunum, vernduðum vinnustöðum sem og hæfingarstöðvum. Úttektirnar byggja á þeim gæðavísum sem myndaðir voru og felast í bæði boðuðum og óboðuðum heimsóknum á viðkomandi staði, viðtölum við forstöðumenn og aðra starfsmenn og eftir atvikum þá sem þjónustunnar njóta. Einnig svara starfsmenn nafnlausri spurningakönnun um starfsemina. Niðurstöður úttektanna nýtast til að rýna hina margvíslegu þætti þjónustunnar, benda á hvað betur mætti fara og setja fram aðgerðaráætlanir um úrbætur. Lögð er áhersla á að eftirlitið sé ekki einungis til aðhalds heldur einnig til að veita stjórnendum og öðru starfsfólki faglegan stuðning og leiðsögn. Í bígerð er að efla þetta innra eftirlit með auknu stöðugildi, m.a. vegna þess að heimilum fatlaðs fólks hefur fjölgað á umliðnum misserum.

Fjölbreytt fræðslustarf

Því er við að bæta að sömu sveitarfélög hafa allt frá árinu 2011 haldið uppi margvíslegu fræðslustarfi fyrir starfsfólk sem vinnur að þjónustu við fatlað fólk innan vébanda þeirra. Sameiginleg fræðslunefnd skipuleggur námskeið í því skyni. Haldin hafa verið að jafnaði 16 námskeið á ári sem 20-40 manns hafa sótt hverju sinni. Sem dæmi um viðfangsefni námskeiðanna má nefna umfjöllun um þá hugmyndafræði sem þjónusta við fatlað fólk byggir á, sem og um efni samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þá er a.m.k. einu sinni á ári fjallað um nauðung, leiðir til að bera kennsl á hana og komast hjá þvingandi aðgerðum í þjónustunni. Heils dags námskeið fyrir nýtt starfsfólk eru haldin að jafnaði tvisvar á ári þar sem m.a. fatlað fólk segir frá reynslu sinni og aðstæðum. Skyndihjálparnámskeið eru haldin reglulega, ásamt margvíslegri annarri fræðslu sem ætlað er að auka og efla þekkingu starfsfólks. Litið er á þetta fræðslustarf sem nauðsynlegan og mikilvægan þátt í forvörnum og gæðastarfi í málaflokknum, ekki síst til að styðja og leiðbeina ófaglærðu fólki í starfi sínu.

Samráðshópur framkvæmdastjóra félagsþjónustu í Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ og Mosfellsbæ.