30. ágú. 2016

Fjölbreytt fuglalíf á Álftanesi styrkt með endurheimt votlendis

?Fjölbreyttu fuglalífi við Kasthúsatjörn á Álftanesi verður skapað aukið svigrúm með endurheimt votlendis í umhverfi tjarnarinnar. Fulltrúar framtíðarinnar, nemendur úr Álftanesskóla, hófu framkvæmdirnar á táknrænan hátt miðvikudaginn 31. ágúst sl.
  • Séð yfir Garðabæ

Fjölbreyttu fuglalífi við Kasthúsatjörn á Álftanesi verður skapað aukið svigrúm með endurheimt votlendis í umhverfi tjarnarinnar. Fulltrúar framtíðarinnar, nemendur úr Álftanesskóla, hófu framkvæmdirnar á táknrænan hátt miðvikudaginn 31. ágúst sl.

Við sama tækifæri voru undirritaðir tveir samningar um verkefnið.  Annars vegar á milli Garðabæjar og Landgræðslu ríkisins sem styrkir verkefnið og hefur með því umsjón og hins vegar á milli Garðabæjar og Toyota á Íslandi sem leggur einnig fjármagn til verkefnisins.

Kasthúsatjörn er friðlýstur fólkvangur. Með endurheimt votlendis í umhverfi hennar er skapað aukið svigrúm fyrir fuglalíf tjarnarinnar og umhverfis hennar sem er sérlega fjölskrúðugt.

Margháttaður ávinningur

Markmiðið með endurheimt votlendis er almennt að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá framræstu votlendi og efla lífríki þess. Jarðvegur votlendis er mjög kolefnaríkur og geymir verulegan hluta af kolefnisforða jarðar. Á jörðinni þekur votlendi um 3% yfirborðs lands en það geymir 20-30% alls lífræns kolefnis á landi. Einnig er votlendi mikilvægt búsvæði fugla, smádýra og plantna og fjölmargar tegundir byggja tilvist sína á því.  Ávinningur af endurheimt votlendis er því margháttaður.

Hluti af umhverfisstefnu bæjarins

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar segir afar ánægjulegt að framkvæmdir við endurheimt votlendis við Kasthúsatjörn séu að hefjast. „Garðabær leggur þunga áherslu á umhverfismál og hefur m.a. staðið að friðun á stórum hluta af landssvæði sínu. Endurheimt votlendis er stórt umhverfismál sem snertir okkur öll og enn frekar þá sem á eftir koma. Með því er ekki aðeins dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda, sem er stórmál í sjálfu sér, heldur erum við einnig að vernda og styrkja fjölskrúðugt lífríki tjarnarinnar.“
Úlfar Steindórsson, forstjóri Toyota á Íslandi segir þátttöku fyrirtækisins í verkefninu verða gleðilegan áfanga. „Það er okkur mikill heiður að taka þátt í verkefni sem miðar að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og verndun umhverfis og lífríkis í samstarfi við heimabæ okkar, Garðabæ. Við hlökkum til að fylgjast með framgangi verkefnisins og enn frekar með þeim árangri sem það á eftir að skila til framtíðar.“

Fyrstu handtökin við framkvæmdirnar við Kasthúsatjörn voru tekin af nokkrum nemendum í 5. bekk Álftanesskóla. Verkið felst í uppfyllingu alls 675 metra af skurðum og uppsetningu á vatnsstokk við Jörfaveg.
Landgræðsla ríkisins hefur eftirlit og umsjón með verkefninu en umhverfisstjóri Garðabæjar sér um framkvæmd þess f.h. bæjarins.