16. des. 2015

Stefna ríkinu vegna Ísafoldar

Bæjarráð hefur falið lögmanni sínum að undirbúa stefnu gegn ríkinu vegna kostnaðar við rekstur hjúkrunarheimilisins Ísafoldar og krefja ríkið um greiðslu skaðabóta vegna uppsafnaðrar skuldar.
  • Séð yfir Garðabæ

Bæjarráð hefur falið lögmanni sínum að undirbúa stefnu gegn ríkinu vegna kostnaðar við rekstur hjúkrunarheimilisins Ísafoldar og krefja ríkið um greiðslu skaðabóta vegna uppsafnaðrar skuldar.

Á fundi bæjarráðs í gær, þriðjudag, gerði bæjarstjóri grein fyrir fundi sínum með fulltrúum velferðarráðuneytisins um málefni Ísafoldar en þar kom fram að ríkið hefði ekki fjármuni til að hækka daggjöld hjúkrunarheimila. Ríkið hafnar einnig að greiða uppsafnaðan umframkostnað enda sé ekki fjárheimild til þess. Garðabær hefur séð um rekstur Ísafoldar síðan heimilið tók til starfa í Sjálandi í apríl 2013. Samkvæmt lögum um málefni aldraðra eiga daggjöld sem eru ákveðin af ráðherra að standa undir rekstrarkostnaði við hjúkrunarheimili.

Vitlaust gefið miðað við gæðakröfur

Gunnar Einarsson bæjarstjóri segir að það hafi sýnt sig að daggjöldin dugi ekki til þess að heimilið geti starfað samkvæmt þeim gæðaviðmiðum sem sett eru fram í kröfulýsingu velferðarráðuneytisins um starf hjúkrunarheimila. "Metnaður hefur verið lagður í að byggja starfið upp í samræmi við kröfulýsinguna og í það hefur farið mikil vinna og kostnaður. Til að mæta honum hefur Garðabær greitt yfir 100 milljónir króna árlega til rekstrarins. Það er því klárlega vitlaust gefið og ekkert samræmi á milli þeirra krafna sem ráðuneytið og landlæknir gera og fjárveitinganna sem eiga að standa undir rekstrinum," segir Gunnar. Hann bendir á að í skýrslu frá Ríkisendurskoðun sé það staðfest að það vanti talsvert upp á að daggjöld geti staðið undir rekstri hjúkrunarheimila.

Jákvæðar niðurstöður í úttekt landlæknis

Embætti landlæknis gerði úttekt á gæðum þjónustunnar á Ísafold fyrr á þessu ári og var niðurstaða hennar afar jákvæð. Hægt er að lesa niðurstöður úttektarinnar á vef Landlæknis. Þar sést að eina athugasemdin sem Landlæknir gerir er að auka þurfi faglega mönnun, þ.e. að hærra hlutfall starfsfólks ætti að vera hjúkrunarfræðingar og annað fagfólk, sem kallar á enn hærri rekstrarkostnað.

Ekki forsvaranlegt gagnvart íbúum

Í nýsamþykktri fjárhagsáætlun er aðeins gert ráð fyrir rekstri Ísafoldar í þrjá mánuði á árinu 2016. Ástæðan er að sögn Gunnars sú að ekki sé forsvaranlegt að bærinn nýti skattfé íbúa til að greiða jafn háa fjárhæð í verkefni sem á að vera fjármagnað af ríkinu, lögum samkvæmt. "Ég get ekki varið það gagnvart íbúum. Við munum hins vegar leggja þunga áherslu á að halda íbúum, starfsfólki, heimilisfólki og aðstandendum upplýsta um gang mála og að vinna þetta með hagsmuni allra þessara hópa í huga,“ segir Gunnar.

Fundargerð bæjarráðs má finna hér

Niðurstöður úttektar landlæknis má finna hér