17. feb. 2014

Hvað finnst þér? Skólaþing um endurskoðun skólastefnu

Í liðinni viku var boðað til skólaþings um endurskoðun skólastefnu Garðabæjar undir yfirskriftinni: Hvað finnst þér?
  • Séð yfir Garðabæ

Í liðinni viku var boðað til skólaþings um endurskoðun skólastefnu Garðabæjar undir yfirskriftinni: Hvað finnst þér? Sú skólastefna sem nú er til endurskoðunar tekur til leik-, grunn- og tónlistarskóla í Garðabæ.

Páll Hilmarsson formaður stýrihóps um endurskoðun skólastefnunnar setti þingið og Margrét Björk Svavarsdóttir forstöðumaður fræðslu og menningarsviðs stýrði þinginu.

Stýrihópur um endurskoðun skólastefnu lagði spurningakönnun fyrir starfsfólk, nemendur og foreldra nú í byrjun árs í þeim tilgangi að fá fram skoðanir þeirra sem  koma daglega að skólastarfinu. Niðurstöður voru kynntar á skólaþinginu sem og helstu niðurstöður umræðna barna og ungmenna sem fóru fram í leikskólunum, á bekkjarfundum og skólaþingum grunnskólanna. Niðurstöður benda til þess að almenn sátt ríki um að skólastarf í bænum sé gott þótt vissulega sé nauðsynlegt að vera sívakandi yfir velferð og líðan nemenda sem og framþróun og nýjungum í skólastarfi.

Ísbúð í kjallaranum

Leikskólabörnin leggja í svörum sínum mikla áherslu á leik og félagsskap annarra barna en þykir verra þegar slettist upp á vinskapinn. Þau telja leikskólann sinn jafnvel þann besta í heimi en vildu þó gjarnan gera ýmsar breytingar s.s. að mála leikskólann bleikan, hafa þar tívolí, candyfloss og ísbúð í kjallaranum.

Góður matur og gott félagslíf

Nemendur á yngsta stigi grunnskólans telja mikilvægast að læra það sem verið er að kenna, vera góður við aðra og vera með vinum sínum. Frímínútur, íþróttir, iPadar og tölvur njóta vinsælda meðal þessa hóps. Þeim þykir slæmt ef ekki er hlustað á þá, þeim er strítt eða maturinn er vondur. Þessir nemendur telja að það myndi bæta skólastarfið ef farnar væru fleiri vettvangsferðir, leiktækin á skólalóðinni væru fjölbreyttari og maturinn betri.

Á miðstigi grunnskólans eru vinátta, góð samskipti og gott félagslíf ofarlega í hugum nemenda og áhersla á að geta átt vini af báðum kynjum. Skíðaferðir njóta vinsælda sem og íþróttir og heimilisfræði sem ásamt lestri, stærðfræði og tungumálum er talin ein mikilvægasta námsgreinin. Þessi hópur telur einnig að fleiri vettvangsferðir væru til bóta sem og fleiri leiktæki á lóðir, betri matur og meira frelsi t.d. að mega verða með síma og tyggjó í skólanum.

Elsti nemendahópurinn leggur áherslu á gott félagslíf, ferðir, góða og skemmtilega kennara, einstaklingsmiðað nám og góðan undirbúning fyrir framhaldsskólann. Þar nefna nemendur einnig að fleiri vettvangsferðir væru til bóta sem og betri matur og minni heimavinna.

Velferð og vellíðan

Í svörum foreldra kemur fram að leggja beri áherslu á velferð og vellíðan allra nemenda, vinna þurfi markvisst gegn einelti og vinna með samskiptahæfni. Fylgjast þurfi vel með nýjustu straumum og stefnum, byggja upp öflugt stoðkerfi fyrir nemendur sem þurfa sérstakan stuðning í námi og auka samstarf tónlistarskólans við leik- og grunnskóla enn frekar. 

Í svörum starfsfólks er einnig lögð áhersla á samskipti, velferð og vellíðan, samfellu í námi nemenda og einstaklingsmiðað nám sem tekur mið af áhugasviðum nemenda. Segja má að í að í svörum allra þessara hópi komi fram áhersla á velferð, vellíðan, og félagsleg samskipti nemenda auk námslegra þátta.

Hugmyndavinna

Að kynningu lokinni unnu þinggestir í hópum að því að skilgreina þau verkefni sem þeir telja brýnast að leggja áherslu á næstu árin og komu með hugmyndir að verðugum markmiðum og leiðum. Þar komu fram ýmsar hugmyndir s.s. að efla stoðþjónustu, leggja sérstaka áherslu á raungreinar sem og verklegar greinar, bæta innra starf tómstundaheimila, aðgerðabinda forvarnaáætlanir, einstaklingsmiða nám og auka enn frekar sjálfstæði skóla og nemenda.

Stýrihópur um endurskoðun skólastefnu Garðabæjar boðaði til þingsins og mun hann vinna áfram að nýrri skólastefnu með niðurstöður þingsins í farteskinu.