14. jún. 2013

Ragnheiður Jónsdóttir heiðruð

Menningaruppskeruhátíð var haldin í annað sinn fimmtudaginn 30. maí sl á vegum menningar- og safnanefndar Garðabæjar. Við það tilefni var Ragnheiður Jónsdóttir myndlistarkona heiðruð sérstaklega fyrir starf sitt á sviði menningar og lista á undanförnum árum.
  • Séð yfir Garðabæ

Menningaruppskeruhátíð var haldin í annað sinn fimmtudaginn 30. maí sl á vegum menningar- og safnanefndar Garðabæjar.  Við það tilefni var Ragnheiður Jónsdóttir myndlistarkona heiðruð sérstaklega fyrir starf sitt á sviði menningar og lista á undanförnum árum.  Ragnheiður Jónsdóttir myndlistarkona hefur verið búsett í Garðabæ um árabil og þar er einnig vinnustofa hennar.

Ragnheiður hefur lært teiknun og málun við Myndlistarskólann í Reykjavík.  Hún stundaði einnig grafíknám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og í París. Ragnheiður er talin vera einn atkvæðamesti fulltrúi íslenskrar grafíklistar en síðastliðinn ár hefur Ragnheiður einbeitt sér að kolateikningunni. Ragnheiður hefur tekið þátt í fjöldann öllum af samsýningum og hefur líka haldið einkasýningar reglulega.   Árið 1994 var Ragnheiður bæjarlistamaður Garðabæjar og árið 1995 fékk hún menningarverðlaun DV fyrir myndlist.  Árið 2002 var hún heiðruð ásamt eldri listamönnum úr Garðabæ í lok afmælisárs Garðabæjar. 

 

Athyglisverðar sýningar á liðnu ári

Ragnheiður hefur þó ekki sest í helgan stein og hefur ótrauð haldið áfram með listsköpun sína undanfarin ár.  Undanfarið ár hefur hún vakið mikla athygli fyrir sýningu sína Slóð sem var haldin í Listasafni ASÍ síðastliðið haust en það var 31. einkasýning Ragnheiðar.  Fyrsta yfirlitssýning á verkum Ragnheiðar Jónsdóttur var opnuð á Kjarvalsstöðum í nóvember á síðasta ári og stóð fram í byrjun þessa árs.  Í umfjöllun um sýninguna sagði meðal annars:
,,Á rúmlega fjörutíu ára ferli sínum hefur Ragnheiður skilað drjúgu lífsverki, sem lifir í myndhugsun Íslendinga. Eftir að hefja feril sinn sem listmálari var hún meðal frumherja í flokki þeirra sem settu grafíklistina í öndvegi í íslenskum listheimi á 8. og 9. áratug síðustu aldar. Ýmsar túlkanir hennar úr hversdagleikanum urðu að táknmyndum samtímans, einkum á sviði kvennabaráttunnar og þeirrar umræðu um sjálfsvitund einstaklingsins, sem varð áberandi í umræðu vestrænna þjóða á þessum tíma. Hróður Ragnheiðar barst víða um lönd með þátttöku hennar í fjölda samsýninga, og grafíkverk hennar er að finna í ýmsum erlendum söfnum, allt frá Færeyjum til Egyptalands, auk þess sem verk hennar eru í fjölda safna á Íslandi“

Sjá einnig frétt um menningaruppskeruhátíð.