21. nóv. 2012

Friðsælt samfélag með fá afbrot

Garðabær er friðsælt samfélag þar sem lítið er um afbrot. Fjöldi innbrota hefur almennt farið lækkandi á höfuðborgarsvæðinu á undanförnum árum og Garðabær fylgir þeirri þróun.
  • Séð yfir Garðabæ

Garðabær er friðsælt samfélag þar sem lítið er um afbrot. Fjöldi innbrota hefur almennt farið lækkandi á höfuðborgarsvæðinu á undanförnum árum og Garðabær fylgir þeirri þróun. Hér eru innbrot þó færri á hverja þúsund íbúa en á höfuðborgarsvæðinu að meðaltali og á það bæði við um innbrot og þjófnaði almennt og um innbrot á heimili. Þetta er meðal þess sem fram kom á opnum fundi með lögreglunni sem haldinn var í Flataskóla í gær. Í þessu samhengi lýsir lögreglan sérstakri ánægju með öfluga nágrannavörslu í Garðabæ.

Myndin hér fyrir neðan sýnir fjölda tilkynntra þjófnaða-innbrota á heimili frá janúar til október 2009 til 2012

null

Bætt umferðarmenning

Tíðnin í Garðabæ er einnig lægri þegar kemur að ofbeldisbrotum og eignaspjöllum en á svæðinu í heild.  Eina myndin sem sker sig úr er fjöldi tilkynntra slysa í umferðaróhöppum en þau eru fleiri í Garðabæ en á höfuðborgarsvæðinu að meðaltali. Helsta skýringin á því eru gatnamótin Hafnarfjarðarvegur / Reykjavíkurvegur / Flatahraun / Álftanesvegur þar sem óhöpp eru nokkuð tíð. Vonir eru þó bundnar við að þeim fækki eftir nýlegar breytingar sem gerðar voru á gatnamótunum. Almennt séð hefur umferðarslysum farið fækkandi á höfuðborgarsvæðinu og telur lögreglan það vera til marks um bætta umferðarmenningu.

Ánægja með störf lögreglunnar

Á fundinum voru einnig kynntar niðurstöður könnunar á viðhorfi fólks til lögreglunnar.  Þar kom fram að 91% íbúa í Garðabæ eru ánægðir með störf lögreglu. Hlutfall ánægðra er hærra í Garðabæ en á höfuðborgarsvæðinu í heild og hærra en almennt mælist á starfsvæði lögreglustöðvar 2, sem þjónar m.a. Garðabæ.  Þrátt fyrir það telja færri í Garðabæ að lögreglan sé aðgengileg en íbúar á svæðinu í heild.

Fáir orðið fyrir innbroti eða þjófnaði

Aðeins 5% Garðbæinga sögðust hafa orðið fyrir innbroti eða þjófnaði á árinu 2011, samanborið við 11% íbúa á höfuðborgarsvæðinu í heild og 10% á starfssvæði lögreglustöðvar 2. Þetta er mikil fækkun í Garðabæ frá fyrri árum. Það vekur athygli lögreglu hversu lágt hlutfall þeirra sem svarar þessari spurningu játandi segist hafa tilkynnt um atvikið til lögreglu. Það hlutfall var 67% í Garðabæ og er það þó hærra hér en annars staðar. Lögreglan ítrekar mikilvægi þess að tilkynna afbrot svo hægt sé að upplýsa þau.

Ef óskað er eftir skjótri aðstoð lögreglu skal undantekningarlaust hringja í 112. Ef erindið er af öðrum toga, og þolir e.t.v. einhverja bið, vinsamlegast hafið samband við þjónustuver lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í síma 444-1000. Sömuleiðis er hægt að koma upplýsingum á framfæri um hvaðeina með því að senda tölvupóst á netfangið abending@lrh.is  

Glærur frá fundinum með tölfræði um stöðu mála í Garðabæ.

Frétt á lögregluvefnum um fundinn