28. feb. 2014

Jákvæðar breytingar við sameiningu tónlistarskólanna

Um 34% foreldra barna sem eru í tónlistarnámi á Álftanesi segjast hafa upplifað breytingar á kennslu eða skólastarfi eftir að Tónlistarskóli Garðabæjar og Tónlistarskóli Álftaness sameinuðust. Flestir segja þær jákvæðar.
  • Séð yfir Garðabæ

Um 34% foreldra barna sem eru í tónlistarnámi á Álftanesi segjast hafa upplifað breytingar á kennslu eða skólastarfi eftir að Tónlistarskóli Garðabæjar og Tónlistarskóli Álftaness sameinuðust. Af þeim sem svara því hvernig þeir upplifi breytingarnar segja flestir að þær séu jákvæðar.

Perónulegt andrúmsloft og viðmót

Spurningakönnunin var lögð fyrir foreldra nemenda sem stunda nám í starfsstöð Tónlistarskóla Garðabæjar á Álftanesi. Tilgangur könnunarinnar var að fá fram viðhorf foreldra til sameiningar tónlistarskólanna og hvernig þeim þætti hafa tekist til.

Stór meirihluti þeirra foreldra sem svarar er ánægður með starf Tónlistarskólans eftir sameiningu. Þegar spurt er hvort það sé eitthvað sem foreldrar séu sérstaklega ánægðir með er m.a. minnst á persónulegt andrúmsloft og viðmót, að skólinn á Álftanesi fái að halda sinni ímynd, bætta upplýsingagjöf, aukið samstarf Tónlistarskólans og grunnskólans og að gott sé að hafa aðgang að sal skólans við Kirkjulund fyrir tónfundi. Þá eru þrír sem segjast sérstaklega ánægðir með kennara barnsins síns.

Starfsdagar verði samræmdir

Aðeins fimm svöruðu spurningu um hvort það væri eitthvað sem foreldrar væru sérstaklega óánægðir með. Þar kom fram óánægja með breytt innheimtufyrirkomulag á skólagjöldum, að starfsdagar Tónlistarskólans mættu vera þeir sömu og grunnskólanna, að erfitt væri að samræma þá tíma sem eru í boði við vinnu foreldra, að slæmt væri ef kennsla félli niður og loks lýsti einn söknuði eftir starfsmanni sem hefur látið af störfum.

Stærri tónleikar verði í salnum við Kirkjulund

Mikill meirihluti foreldra hefur sótt tónleika með barninu sínu í sal skólans í Kirkjulundi 11, í sal grunnskólans á Álftanesi og í matsal (hátíðarsalnum á Álftanesi). Þegar spurt var hvar foreldrar vildu helst að börn þeirra kæmu fram á tónleikum svara 42% með sal skólans í Kirkjulundi, 32% með hátíðarsalnum og 26% kjósa helst sal grunnskólans á Álftanesi. Í opinni spurningu í lokin kemur fram hjá fjórum svarendum að þeir telji heppilegt að hafa minni tónfundi á Álftanesi, vegna nálægðar við heimili en að stærri tónleikar eigi betur heima í salnum við Kirkjulund.

Erum á réttri leið

Laufey Ólafsdóttir, skólastjóri Tónlistarskólans er afar ánægð með niðurstöður könnunarinnar. „Tilgangurinn með könnuninni var að fá að vita hvernig foreldrar barna á Álftanesi upplifa sameiningu tónlistarskólanna. Það er mjög ánægjulegt að sjá að langflestir sem svara lýsa ánægju sinni með starfið. Meirihluti foreldra segist ekki hafa upplifað breytingar eftir sameininguna sem segir okkur að hún hefur ekki haft í för með sér röskun á námi barnanna. Þeir sem hafa hins vegar upplifað breytingar lýsa þeim langflestir sem jákvæðum. Þessi niðurstaða styrkir okkur, stjórnendur og starfsfólk skólans, í þeirri vinnu sem sameining skólanna felur í sér og gefur okkur vísbendingu um að við séum á réttri leið.“