31. jan. 2011

Góður árangur hjá Strætó

Óhöppum strætisvagna Strætó bs. í umferðinni hefur fækkað með hverju ári frá árinu 2006. Forvarnaverkefni Strætó og VÍS hefur skilað miklum árangri á undanförnum árum
  • Séð yfir Garðabæ

Óhöpp í umferðinni þar sem strætisvagnar Strætó bs. eiga í hlut voru færri á síðasta ári en þau hafa verið frá því farið var að vinna markvisst að því að fækka þeim. Á fimm ára tímabili frá 2006 til 2010 fækkaði óhöppum um nærri helming á ársgrundvelli, eða um 48%. Sérstakt forvarnaverkefni Strætó í samstarfi við VÍS hefur gegnt lykilhlutverki í þeim árangri sem náðst hefur, auk þess sem sveitarfélög hafa brugðist vel við þegar Strætó hefur vakið athygli á áhættuþáttum í skipulagi gatna og nánasta umhverfis. Þá hafa strætisvagnabílstjórar tekið virkan þátt í forvarnarstarfinu og eiga eins og gefur að skilja stóran þátt í því hversu vel hefur tekist að fækka óhöppum í akstri.

Umtalsverður sparnaður


Forvarnarverkefni Strætó og VÍS hófst í byrjun árs 2008 en árið 2006 hóf Strætó markvisst að skrá óhöpp og leita leiða til að fækka þeim. Markmið verkefnisins er að fækka óhöppum í akstri Strætó og stuðla að auknu öryggi vegfarenda. Óhætt er að segja að vel hafi tekist til, því árið 2006 voru óhöppin 304, árið eftir fækkaði þeim lítillega, niður í 297, en eftir að forvarnarverkefni Strætó og VÍS hófst hafa stökkin verið stór. Árið 2008 voru óhöppin 268, árið 2009 hafði þeim fækkað í 197 og síðasta ár sló síðan öll met, en þá urðu einungis 157 óhöpp í akstri Strætó.

Óhöpp hjá Stætó voru þannig að jafnaði liðlega 25 á mánuði árið 2006 en voru komin niður í um 13 á mánuði að jafnaði á síðasta ári. Eins og gefur að skilja hefur þetta umtalsverðan sparnað í för með sér fyrir Strætó, þar sem kostnaður við viðgerðir, varahluti, tryggingar og ýmislegt fleira er minni. Liður í forvarnarverkefninu á síðasta ári voru sérstakir Öryggisdagar Strætó og VÍS í október og nóvember, þar sem sérstök öryggisskilaboð til annarra vegfarenda voru á strætisvögnum. Að auki lögðu strætisvagnabílstjórar sig sérstaklega fram um að sýna gott fordæmi í umferðinni og keppst var við að fækka óhöppum frá sama tímabili árið áður. Árangurinn af Öryggisdögunum var framar vonum og tókst að fækka óhöppum á tímabilinu úr 28 í 11.

Stefna að frekari fækkun óhappa


„Þessi árangur er framar vonum og eiga allir þeir sem að málinu koma hrós skilið. Um 35.000 manns taka strætó reglulega og þeir treysta því að við skilum þeim óhappalaust á áfangastað. Auðvitað er hvert óhapp einu óhappi of mikið, en þessi öra fækkun óhappa þýðir að öryggi farþega okkar og annarra vegfarenda hefur aukist ár frá ári, sem ber að fagna. Um leið stefnum við ótrauð að því að fækka óhöppum enn meira á þessu ári og ég treysti vagnstjórunum fyllilega til að gera enn betur í ár, enda hafa þeir sýnt að með markvissri vinnu er hægt að ná frábærum árangri,“ segir Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó.