Góður árangur sumarsins
Á annað hundrað ungmenni unnu við umhirðu og ræktun á útivistarsvæðum Garðabæjar í júní og júlí. Verkefnin voru liður í atvinnuátaki sem gerður var samningur um milli Skógræktarfélags Íslands, Garðabæjar og Skógræktarfélags Garðabæjar. Meginverkefni sumarsins voru lagning og viðhald göngustíga, hefting lúpínu og hreinsun rusls á útivistarsvæðunum en einnig fengust ungmennin við áburðargjöf, þökulagnir, gróðursetningu, niðurrif og viðhald girðinga og önnur tilfallandi verkefni.
Helstu athafnasvæði unga fólksins voru ræktunarsvæði Skógræktarfélags Garðabæjar í Smalaholti og í Sandahlíð, friðlandið við Vífilsstaðavatn, Urriðaholt og fjörur og hraun í bæjarlandinu.
Nýir stígar
Af verkefnum sumarsins ber einna hæst gerð nýrra stíga í Smalaholti og um Hlíðarhorn vestan í Vífilsstaðahlíð. Nýi göngustígurinn í Smalaholti tengist öðrum stíg sem lagður var ofar í holtinu í fyrra sumar og saman mynda þeir skemmtilega og fjölbreytta hringleið um skógræktarsvæðið. Stígurinn um Hlíðarhorn liggur frá plani við Vífilsstaðavatn suður fyrir enda hlíðarinnar í átt að Maríuvöllum. Er mál manna að lagning stígsins hafi verið orðin löngu tímabær enda tengir hann saman tvö afar vinsæl útivistarsvæði í bæjarlandinu, annars vegar friðlandið við Vífilsstaðavatn og hins vegar sunnanverða Vífilsstaðahlíð í Heiðmörk.
Hefting lúpínu
Enn fremur var mikil áhersla lögð á heftingu lúpínu í friðlandinu við Vífilsstaðavatn og á svæðum Skógræktarfélagsins. Tilgangur heftingarinnar er einkum að koma í veg fyrir að lúpínan breiðist frekar út með tilheyrandi raski á því fjölbreytta dýra- og plöntulífi sem fyrir er á svæðunum. Á skógræktarsvæðunum var einnig gert átak í að klippa lúpínu frá lágvöxnum trjáplöntum sem stendur nokkur ógn af henni.
Með almennri umhirðu, stígagerð og annarri uppbyggingu á útivistarsvæðunum er komið til móts við þann mikla fjölda fólks sem nýtir sér þau allan ársins hring, sem fylgir nokkur ágangur. Vinsældum svæðanna fylgir óneitanlega nokkurt rask á gróðri og aðstöðu. Er því nauðsynlegt að sinna vel umhirðu og viðhaldi á næstu árum.
Einar Örn Jónsson
umsjónarmaður skógræktarsvæða Skógræktarfélags Garðabæjar
Matthías Ólafsson
umsjónarmaður atvinnuátaks Garðabæjar og Skógræktarfélags Íslands