9. jún. 2010

Sjálandsskóli fær toppeinkunn

Helsti styrkleiki Sjálandsskóla er öflugt og metnaðarfullt innra starf og að starfsmenn leggja sig fram við að koma til móts við þarfir nemenda.
  • Séð yfir Garðabæ

Helsti styrkleiki Sjálandsskóla er öflugt og metnaðarfullt innra starf og að starfsmenn leggja sig fram við að koma til móts við þarfir nemenda. Vel er staðið að stjórnun og skipulagi kennslu við Sjálandsskóla, námskröfur eru skýrar og fyrirkomulag námsmats er gott. Þetta er meðal niðurstaðna úttektar á starfi Sjálandsskóla sem framkvæmd var fyrr á þessu ári fyrir mennta- og menningarmálaráðneytið.


 

Í úttektinni var einkum lögð áhersla á stjórnun, skipulag kennslu, námskröfur og fyrirkomulag námsmats. Sjálandsskóli fékk á árinu 2006 undanþágu frá ráðuneytinu til að víkja tímabundið frá viðmiðunarstundaskrá grunnskóla. Um var að ræða þróunarverkefni til þriggja ára um breytta kennsluhætti sem fól m.a. annars í sér áherslu á samkennslu árganga og nána samvinnu kennara. Í úttektinni var einnig lagt mat á hvernig þróunarverkefnið hefði haft áhrif á starf skólans. Sem fyrr segir er niðurstaðan að í skólanum fari fram öflugt og metnaðarfullt innra starf og telja úttektaraðilar að sérsamningur sem gerður var við kennara skólans um ákveðinn sveigjanleika hafi haft mikið að segja um hversu vel hefur tekist til.


Annar helsti styrkeiki skólans er, samkvæmt úttektinni, skólahúsnæðið sjálft sem byggt er á hugmyndafræði um opið og sveigjanlegt skólastarf. Þá sé allur aðbúnaður nemenda og starfsfólks til fyrirmyndar. Skólahúsnæðið er þó einnig nefnt sem hugsanlegur veikleiki þar sem opna rýmið geti haft truflandi áhrif á nám ef ekki sé gætt nægjanlega að nýtingu húsnæðis og umgengni. Annar veikleiki er að sjálfsmat skólans sé óþarflega umfangsmikið.

Helstu niðurstöður úttektarinnar eru í hnotskurn:

  • Sjálandsskóli starfar samkvæmt lögum, reglugerðum og aðalnámsskrá
  • Vel er staðið að stjórnun og skipulagi kennslu við Sjálandsskóla
  • Námskröfur eru skýrar og fyrirkomulag námsmats er gott
  • Þróunarverkefni skólans um samkennslu árganga og nána samvinnu kennara hefur reynst vel og haft góð áhrif á starfsemi skólans
  • Innra mat skólans hefur nýst til umbóta

Í bréfi ráðuneytisins til Garðabæjar og skólastjóra Sjálandsskóla um niðurstöður úttektarinnar, segir að mennta- og menningarmálaráðuneytið fagni niðurstöðum úttektarinnar en samkvæmt þeim virðist skólastarf í Sjálandsskóla vera með ágætum og foreldrar og nemendur ánægðir með skólann. Ráðuneytið hvetur Sjálandsskóla og Garðabæ til áframhaldandi farsæls skólastarfs.

 

Úttektarskýrslan er aðgengileg á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

 

Alþjóðaskólinn

Ráðuneytið lét einnig gera úttekt á starfsemi Alþjóðaskólans sem er einkrarekinn en starfar innan húsnæðis Sjálandsskóla. Alþjóðaskólinn starfar samkvæmt alþjóðlegri námskrá og er niðurstaða úttektarinnar að hann uppfylli þau viðmið sem þar eru sett. Einnig er tilgreint að nemendur Alþjóðaskólans fái kennslu í íþróttum, listum, tónlist, smíðum og textílmennt ýmist frá kennurum Alþjóðaskólans eða Sjálandsskóla.

Úttektaraðilar horfa til samstarfs skólanna tveggja sem þeir segja gott og veita nemendum tækifæri á fjölbreyttari námskrá og námstækifærum.

 

Úttektarskýrslan er aðgengileg á vef mennta og menningarmálaráðuneytisins.