12. feb. 2010

Fjölbreytni einkennir gott skólastarf

Nemendur, foreldrar og starfsfólk grunnskóla eru sammála um að virðing, vinnufriður, fjölbreyttir kennsluhættir, góð samskipti og umgengni séu atriði sem einkenni gott grunnskólastarf
  • Séð yfir Garðabæ

Nemendur, foreldrar og starfsfólk grunnskóla eru sammála um að virðing, vinnufriður, fjölbreyttir kennsluhættir, góð samskipti og umgengni séu atriði sem einkenni gott grunnskólastarf. Þetta var meðal þess sem fram kom á opnu skólaþingi sem haldið var í Sjálandsskóla í gær en þar voru lesnar upp niðurstöður úr hugarflæði nemenda, foreldra og starfsfólks skóla í Garðabæ um gott skólastarf.

Mikil þátttaka í stefnumótun

Kynnt voru sjónarmið þessara þriggja hópa hvað varðar starf í leikskólum, grunnskólum og tónlistarskóla. Fyrir alla hópana voru lagðar tvær spurningar, þ.e. hvað einkennir gott starf í leik-, grunn- eða tónlistarskóla og hvað má bæta í starfi sömu skóla. Hugarflæðið sem fram fór fyrr í vetur er liður í vinnu við endurskoðun skólastefnu Garðabæjar. Spurningar voru sendar rafrænt til foreldra en nemendur og starfsmenn skólanna svöruðu þeim á skólaþingum sem haldin voru í hverjum skóla. Mörg hundruð manns tóku þátt i hugarflæðinu og lögðu þannig sitt af mörkum til mótunar skólastefnu bæjarins.

Leiðinlegt að vera skömmuð

Á opna skólaþinginu í gær voru niðurstöður úr hugarflæðinu kynntar og kom þar margt athyglisvert fram. Leikskólabörnum finnst til dæmis mikilvægt að fá að leika við vini sína, að fá fjölbreyttan mat, að samskipti séu góð og kennararnir góðir. Þau vilja ekki vera of lengi úti þegar kalt er í veðri og þeim leiðist þegar það eru mikil læti og þegar þau eru skömmuð. Starfsfólk grunnskóla telur að fjölbreyttara námsmat yrði til að bæta grunnskólastarf og þeir vilja jafna vægi bók- og verkgreina. Foreldrar, nemendur og starfsfólk Tónlistarskóla Garðabæjar telja allir að samspilshópar séu einkenni góðs tónlistarskólastarfs og að aukið vægi þeirra yrði til að bæta starfið.

Enn hægt að taka þátt

Um 60 manns sóttu skólaþingið í gær. Eftir að niðurstöður hugarflæðisins höfðu verið kynntar var unnið í hópum þar sem haldið var áfram að ræða um starf leikskóla, grunnskóla og tónlistarskóla og leitað svara við því hvað geri skólastarf gott og hvað megi bæta í skólastarfinu. Niðurstöður hópanna verða kynntar hér á vefnum þegar þær liggja fyrir og þá verður einnig hægt að senda inn tillögur til stýrihóps um endurskoðun skólastefnu Garðabæjar.  Gert er ráð fyrir að endurskoðuð skólastefna liggi fyrir í apríl.

 

Niðurstöður hugarflæðsins sem kynntar voru á skólaþinginu 11. febrúar 2010.


 

Frá skólaþingi 11. febrúar 2010

Páll Hilmarsson, bæjarfulltrúi og formaður skólanefndar grunnskóla setti þingið.

Frá skólaþingi 11. febrúar 2010

Fulltrúar úr ungmennaráði Garðabæjar kynntu hugmyndir leikskólabarna um gott leikskólastarf

Frá skólaþingi 11. febrúar 2010

Um 60 manns sóttu þingið og lögðu sitt af mörkum til að skapa enn betri skóla í Garðabæ

Frá skólaþingi 11. febrúar 2010

Eftir kynningarnar var unnið í hópum sem héldu áfram að leita svara við því hvað einkennir gott skólastarf

Frá skólaþingi 11. febrúar 2010