29. jan. 2010

Trjágróður á lóðamörkum

Garðeigendum ber að gæta að því að trjágróður vaxi ekki yfir lóðamörk þar sem slíkt getur hindrað umferð og valdið tjóni.
  • Séð yfir Garðabæ

Garðyrkjustjóri minnir garðeigendur á að huga að umhirðu trjágróðurs en rétti tíminn til að klippa limgerði, lauftré og berjarunna er núna síðla vetrar og fram á vor.

Í grein frá garðyrkjustjóra sem birtist í Garðapóstinum í næstu viku segir m.a. "Í Garðabæ eru margir fallegir og vel grónir garðar sem setja hlýlegan svip á bæinn. Garðeigendum ber þó að gæta að því að trjágróður vaxi ekki yfir lóðamörk þar sem slíkt getur hindrað umferð og valdið tjóni.

Trjá- og runnagróður sem vex út yfir lóðamörk eða slútir yfir þau getur þrengt að umferð á gangstéttum og stígum. Trjágróður á lóðamörkum getur einnig valdið vandræðum við að hreinsa snjó á gangstéttum og stígum og hafa trjágreinar valdið tjóni á snjóruðningstækjum."

Víða þarf að klippa og snyrta

Starfsmenn garðyrkjudeildar bæjarins hafa nú lokið árlegri könnun á gróðri á lóðamörkum í bænum. Í ljós kom að víða vex trjágróður út yfir lóðamörk. Í slíkum tilfellum þarf að klippa hann og snyrta svo að allir komist ferða sinna án hindrana.

Þeir garðeigendur sem þurfa að gera bragarbót hjá sér fá sent bréf næstu daga ásamt leiðbeiningum um almenna umhirðu á trjágróðri í görðum. Ráðgjafar frá EFLU verkfræðistofu ehf., voru fengnir til samstarfs við gerð leiðbeininganna þar sem fjallað er um ýmsa verkþætti er snúa að trjágróðri við lóðamörk. Ýtarlegri leiðbeiningar eru aðgengilegar hér á vefnum og eru allir garðeigendur hvattir til að nýta sér þær.

Heimilt að fjarlægja trjágróður sem skapar hættu


Samkvæmt byggingarreglugerð sem tók gildi 1. júlí 1998 er lóðarhöfum skylt að halda vexti trjágróðurs innan lóðamarka. Þar sem trjágróður fer út fyrir lóðamörk við götur, gangstíga eða opin svæði er bæjaryfirvöldum heimilt að fjarlægja það sem veldur truflun eða óprýði á kostnað lóðarhafa. Þetta á sérstaklega við þar sem gróðurinn veldur óþægindum vegna umferðar, byrgir útsýn eða skapar aðra hættu. Einnig ættu lóðarhafar að hafa í huga hugsanlega skaðabótaábyrgð, verði slys sem rekja má til gróðurs sem vaxið hefur út fyrir lóðamörk.

Reglur um hæð trjágróðurs


Í byggingarreglugerðinni eru ýmsar takmarkanir á notkun trjágróðurs í görðum. Trjágróður við lóðamörk samliggjandi lóða má ekki verða hærri en 1,8 metrar nema lóðarhafar/nágrannar samþykki annað. Gróðurinn má þó vera hærri þar sem lóðamörk eru að götu, gangstíg eða opnu svæði. Trjám sem verða 6 metrar á hæð eða hærri verður að planta a.m.k. þremur metrum frá lóðamörkum samliggjandi lóða. Þessar reglur eru ekki afturvirkar, en rétt er að garðeigendur eldri lóða kynni sér þær og meti hvort ástæða sé til að bregðast við.

Vanda skal tegundaval


Hlýnandi veðurfar undarfarin ár hefur skilað sér í hraðari vexti gróðurs en við höfum átt að venjast. Einnig hefur mikið skjól skapast af uppvaxandi gróðri í bænum á lóðum og opnum svæðum. Hér á árum áður gróðursettu Garðbæingar fljótvaxinn og harðgeran trjágróður, enda var tegundaval fábreytt og gróðrastöðvar fáar.

Víða í görðum er komið að endurnýjun á þessum trjágróðri, og eru garðeigendur þá hvattir til að huga vel að tegundavali s.s. að því hve stórvaxið á hæð og rými tréð verður og hvort runnategund þarf klippingu tvisvar eða oftar á ári. Að þessu þarf einnig að huga við gerð nýrra garða. Nýir garðar eru oftast hannaðir af landlagsarkitektum, en þeir gera margir ráð fyrir grisjun á gróðrinum er fram liða stundir sem ekki má gleymast.

Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir úr bænum sem sýna trjágróður sem vaxið hefur út yfir lóðamörk.

 

 

Mynd af trjágróðri sem vaxið hefur út fyrir lóðamörk

Mynd af trjágróðri sem vaxið hefur út fyrir lóðamörk

Mynd af trjágróðri sem vaxið hefur út fyrir lóðamörk

Mynd af trjágróðri sem vaxið hefur út fyrir lóðamörk