12. des. 2013

Afburðaárangur í PISA

Nemendur í Garðabæ komu afburða vel út úr stærðfræðihluta PISA-könnunarinnar sem framkvæmd var árið 2012 . Meðalniðurstaðan í Garðabæ er 529 stig samanborið við 493 stig sem er meðalniðurstaðan á höfuðborgarsvæðinu í heild.
  • Séð yfir Garðabæ

Nemendur í Garðabæ komu afburða vel út úr stærðfræðihluta PISA-könnunarinnar sem framkvæmd var árið 2012. Meðalniðurstaðan í Garðabæ er 529 stig samanborið við 493 stig sem er meðalniðurstaðan á höfuðborgarsvæðinu í heild. Nemendur í Garðabæ stóðu sig betur í þessum hluta könnunarinnar en jafnaldrar þeirra í Finnlandi, sem hafa jafnan náð góðum árangri í PISA en þar var meðalniðurstaðan 519 stig. Nemendur í Garðabæ standa sig líka vel þegar kemur að lesskilningi. Meðalniðurstaða þeirra er 518 stig, aðeins lægri en hjá Finnum þar sem niðurstaðan er 524 stig.

PISA könnunin er lagt fyrir 15 ára nemendur við lok grunnskólagöngunnar. Í kynningu Námsmatsstofnunar á niðurstöðum könnunarinnar hefur komið fram að Ísland ásamt Svíþjóð fékk lökustu útkomu allra Norðurlandanna en Finnland þá bestu. Það er því athyglisvert að nemendur í Garðabæ séu líkastir finnsku nemendunum þegar árangur þeirra í könnuninni er borin saman við árangur nemenda  á Norðurlöndum.

Í grein eftir Gunnar Einarsson, bæjarstjóra sem birtist í Morgunblaðinu í dag kemur m.a. fram að í Garðabæ er hátt hlutfall afburðanemenda í stærðfræði og að nemendur í Garðabæ hafa óvenju jákvætt viðhorf til skólans síns.

Hér fyrir neðan eru helstu atriði úr greininni.

Hátt hlutfall afburðanemenda

Góður árangur nemenda í Garðabæ í stærðfræði vekur sérstaka athygli. Heildarskor nemenda í Garðabæ er 529 stig sem er sambærilegt við árangur nemenda í löndum eins og Hollandi og Sviss og betri árangur en hjá finnsku nemendunum. Ef Garðabær væri sjálfstætt ríki væri það í 6.-12. sæti á listanum yfir öll 65 þátttökulöndin í PISA. Það vekur einnig athygli að í Garðabæ er hátt hlutfall afburðanemenda í stærðfræði, en þannig eru þeir skilgreindir sem lenda á hæfnisþrepum 5 og 6 í prófinu. Í Garðabæ falla 18% nemenda í þessa tvo flokka. Sambærileg tala fyrir Norðurlöndin í heild er 10% og 15% í Finnlandi. Í Reykjavík falla 13% nemenda í þessa flokka.

Lágt hlutfall nemenda með mjög slakt stærðfræðilæsi í Garðabæ vekur einnig mikla eftirtekt. Aðeins 7% nemenda í Garðabæ ná ekki lágmarkslæsi á stærðfræði samkvæmt viðmiðum OECD, sem er langt undir því sem gerist annars staðar á Norðurlöndum. Þetta er í raun einstakur árangur á heimsvísu, aðeins eitt land hefur í heild lægra hlutfall í PISA 2012 og það er borgríkið Sjanghæ sem hefur langbestu stöðu stærðfræðilæsis af öllum 65 þátttökulöndum í PISA. Það er ljóst að stærðfræðikennsla í grunnskólum Garðabæjar er á heimsmælikvarða þegar kemur að læsi á stærðfræði. 

Lesskilningur drengja í Garðabæ jafn þeim finnsku

Drengir í Garðabæ standa jafnfætis þeim finnsku í lesskilningi. Stúlkur í Garðabæ fá að meðaltali útkomuna 545 stig í lesskilningi en þær finnsku fá 551 og hér er ekki marktækur munur á. Heildarniðurstaðan í Garðabæ er 518 stig sem er sambærileg niðurstaða og í löndum eins og Finnlandi, Írlandi, Hollandi, Kanada og Ástralíu. Meðalniðurstaðan á Norðurlöndunum var töluvert lægri eða um 505 stig.

Náttúrufræðilæsi þarf að bæta

Íslenskir nemendur standa sig almennt verst í læsi á náttúrufræði í prófinu og eru þar talsvert á eftir jafnöldrum sínum annars staðar á Norðurlöndunum, utan Svíþjóðar, sem er á sambærilegu róli. Nemendur í Garðabæ standa sig þó betur en jafnaldrar þeirra annars staðar á höfuðborgarsvæðinu og nemendur á Norðurlöndunum í heild en eru talsvert á eftir Finnum í þessum efnum. Hér er því verðugt sóknarfæri fyrir skóla í Garðabæ sem og annars staðar á landinu til að bæta sig.

Stöðugleiki á höfuðborgarsvæðinu

Almennt má lesa út úr niðurstöðum prófanna að staðan á höfuðborgarsvæðinu á Íslandi er mjög sambærileg árin 2003 og 2012. Það er merki um stöðugleika þrátt fyrir að nokkrar sveiflur séu á milli árganga. Það er því ekki ástæða til tala eins og hér sé allt á niðurleið þótt vissulega megi gera mikið betur.  

Grunnurinn lagður snemma

Margar ástæður liggja að baki góðum árangri nemenda í Garðabæ. Í Garðabæ er þung áhersla lögð á innra starf skóla, bæði leik- og grunnskóla. Háum fjárhæðum er varið til sérkennslu á báðum skólastigum þar sem snemmtæk íhlutun er höfð að leiðarljósi, þ.e. að grípa inn í um leið og barnið sýnir merki þess að þurfa stuðning eða aðstoð, frekar en að bíða þess að vandinn magnist. Í skýrslu sem Almar Miðvík Halldórsson, verkefnisstjóri PISA vann eftir PISA könnunina 2009 segir ennfremur að margt bendi til þess að drengir í grunnskólum Garðabæjar fái í ríkari mæli kennslustuðning, sem geri þeim kleift að standa jafnfætis stúlkum í lesskilningi, en drengir fái almennt. Jafnframt er það mat skýrsluhöfundar að góðan árangur nemenda í Garðabæ, megi að verulegu leyti rekja til gæða og festu í starfi grunnskólanna.

Jákvætt viðhorf til skólans

Viðhorf nemenda í Garðabæ til skólans og gagnsemi námsins er áberandi jákvætt skv. niðurstöðum könnunarinnar. Þá er sama hvort horft er til annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, til sambærilegra sveitarfélaga á Norðurlöndunum eða til meðaltals OECD ríkja. Nemendur í Garðabæ hugsa jákvætt til skólans síns, þeir segja að námsárangur hafi mikið persónulegt gildi fyrir sig, þeir telja samband kennara og nemenda gott og að þeir fái góðan stuðning frá kennurum í náminu. Allt þetta ber skólastarfinu gott vitni og byggir undir þann góða árangur sem nemendurnir ná.

Jöfnuður í menntun á Íslandi

 Eitt af því ánægjulega sem kemur fram í skýrslu um PISA könnunina 2012 er að hvergi er jafn lítil fylgni á milli þjóðfélagsstöðu foreldra og læsi nemenda í stærðfræði, eins og á Íslandi. Engin tengsl koma fram á milli starfsstéttar og menntunar foreldra og árangurs barna. Þetta sýnir að Ísland hefur mörg sóknarfæri þegar kemur að menntun. Með því að bæta íslenskt menntakerfi getum við náð betri árangri og búið unga fólkið okkar enn betur undir framtíðina.