5. des. 2008

Fjárhagsáætlun 2009 lögð fram

Samdrætti í tekjum Garðabæjar á árinu 2009 verður mætt með sparnaði og hagræðingu í rekstri stofnana, lækkun launa og endurskoðun þjónustustigs í einhverjum tilvikum.
  • Séð yfir Garðabæ

Samdrætti í tekjum Garðabæjar á árinu 2009 verður mætt með sparnaði og hagræðingu í rekstri stofnana, lækkun launa og endurskoðun þjónustustigs í einhverjum tilvikum. Útsvar, fasteignaskattur og gjaldskrár verða óbreyttar frá þessu ári. Þetta er meðal forsendna frumvarps að fjárhagsáætlun ársins 2009 sem lagt var fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn í gær. Frumvarpið gerir ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu ársins að fjárhæð 83,0 m.kr. og að áætlunin verði endurskoðuð strax í apríl.

Í frumvarpinu er reiknað með að útsvarstekjur verði 3.356 mkr. á árinu 2009 og er þá gert ráð fyrir 13% samdrætti launatekna íbúa Garðabæjar á árinu 2009. Áætlaðar útsvarstekjur lækka um 8,7% samanborið við endurskoðun áætlunar 2008. Þá hefur verið tekið tillit til íbúafjölgunar sem er áætluð 1,5% á árinu og þess að útsvar var vanáætlað í áætlun fyrir árið 2008.

Helstu forsendur frumvarpsins eru þessar:

Að álagningarhlutfall útsvars sem er 12,46% verði óbreytt á árinu.

Að álagningarhlutfall fasteignaskatts verði óbreytt og að fasteignagjöld að undanskildu sorphreinsunargjaldi hækki ekki á árinu.

Að rekstrarniðurstaða verði jákvæð og hlutfall veltufjár frá rekstri verði hærra en sem nemi 10% af tekjum.

Að leikskólagjöld hækki ekki.

Að breyttar reglur vegna lækkunar á fasteignaskatti elli- og örorkulífeyrisþega tryggi að sem flestir eldri borgarar njóti afsláttar af fasteignaskatti.

Að samdrætti í tekjum verði mætt með sparnaði og hagræðingu í rekstri stofnana og þjónustustig rekstrareininga endurskoðað.

Að fjárveitingar verði auknar vegna lögbundinna skuldbindinga bæjarins um að tryggja félagslegt öryggi íbúa og stuðla að velferð á grundvelli samhjálpar.

Að haldið verði áfram framkvæmdum við byggingu fimleikhúss og 2. áfanga Sjálandsskóla.

Að framlög til íþrótta- og æskulýðsmála verði óbreytt og að haldið verði áfram að greiða hvatapeninga vegna þátttöku barna og ungmenna í tómstundastarfi.

Að laun bæjarfulltrúa lækki um 5 - 10% í samræmi við ákvörðun um lækkun þingfaralauna.

Að launakostnaður nefnda lækki á árinu vegna lækkunar þóknunar og fækkunar funda.

Að laun helstu stjórnenda lækki um 5 – 10% vegna skerðingar á yfirvinnu.

Að dregið verði úr viðbótarstundum í grunnskólum og að fram fari endurskoðun á skólastarfi fyrir skólaárið 2009 – 2010 með það að í huga að hagræða í skólastarfi án þess að skerða lögbundna kennslu.

Rekstur

Eins og áður eru fræðslu- og uppeldismál lang stærsti málaflokkurinn og eru útgjöld til hans áætluð 2.460 mkr. Það er um 0,5% lægri fjárveiting en árið 2008 eða kr. 12,4 mkr. Eins og fram kemur í forsendum frumvarpsins er gert ráð fyrir að fækka viðbótarstundum í grunnskólum sem eru umfram lögbundin viðmið. Einnig verður dregið úr fjárveitingum til rekstrarþátta s.s. vettvangsferða og búnaðarkaupa. Vegna eðlis skólastarfs koma flestar aðgerðir í málaflokkinum þó ekki til framkvæmda fyrr en haustið 2009.

í frumvarpinu er gert ráð fyrir að heildarútgjöld til félagsþjónustu verði 239,3 mkr á árinu 2009 og er það hækkun um 0,4% frá árinu 2008. Í ljósi aðstæðna eru liðir eins og fjárhagsaðstoð, barnavernd og húsaleigubætur hækkaðir.

Verulegur samdráttur er fyrirsjáanlegur á sviði byggingar- og skipulagsmála. Frekari vinnu við deiliskipulag Hnoðraholts verður frestað en unnið verður að verkefnum á sviði friðlýsinga og verndunar.

Framkvæmdir

Á árinu er gert ráð fyrir að framkvæmdir dragist verulega saman en heildarframkvæmdir samkvæmt framkvæmdayfirliti verða 490,0 mkr. Helstu framkvæmdir eru bygging fimleikahúss við Ásgarð og 2. áfanga Sjálandsskóla. Einnig er gert ráð fyrir fjárveitingu að fjárhæð 36 mkr til framkvæmda við viðbygginu FG og að lokið verði við að innrétta aðstöðu fyrir tómstundaheimili Hofsstaðaskóla.

Þá er áætlað að verja um 90,0 mkr til gatnagerðar, 10,0 mkr til framkvæmda við göngugötu á Garðatorgi og 10,0 mkr vegna undirbúnings framkvæmda við nýtt hjúkrunarheimili.

Góð skuldastaða

Skuldastaða Garðabæjar er góð og bærinn er með nánast allar skuldir í ísl. kr. Langtímaskuldir nema um 2.000 mkr. Gert er ráð fyrir heimild til lántöku á árinu 2009 að fjárhæð 260 mkr.

Vegna óvissu í efnahagsmálum þjóðarinnar verður áætlunin endurskoðuð strax í apríl þegar niðurstöður fyrstu þriggja mánaða ársins liggja fyrir.