21. nóv. 2008

Hæsta einkunn sem mælst hefur

Garðbæingar eru ánægðari með sitt sveitarfélag en íbúar annarra sveitarfélaga sem Capacent Gallup hefur spurt.
  • Séð yfir Garðabæ

Garðbæingar eru ánægðari með sitt sveitarfélag en íbúar annarra sveitarfélaga sem Capacent Gallup hefur spurt. Í nýrri könnun sem Capacent vann fyrir Garðabæ sl. sumar fær Garðabær einkunnina 4,5 (á skalanum 1-5) þegar íbúar eru spurðir hversu ánægðir eða óánægðir þeir eru með að búa í Garðabæ. Þetta er hæsta gildi sem mælst hefur í þjónustukönnunum sem Capacent Gallup hefur gert fyrir íslensk sveitarfélög frá árinu 2003.

Í heild eru niðurstöður könnunarinnar mjög jákvæðar og hefur einkunn flestra þátta sem spurt er um hækkað frá síðustu könnun sem gerð var fyrir bæinn árið 2005.

Þegar spurt er um ánægju með starf leikskólanna í bænum er heildareinkunnin 4,1 en var 4,0 árið 2005. Starf grunnskólanna fær sömu einkunn og hefur hækkað úr 3,9 árið 2005. Þegar spurt er um einstaka þætti í starfi leik- og grunnskóla hefur einkunnin í svo til öllum tilfellum hækkað. Greinilegt er að fólk er almennt mjög ánægt með uppvaxtarskilyrði fyrir börn í Garðabæ og mælist sú einkunn nú 4,2 en var 4,0 í síðustu könnun.

Ánægja með uppvaxtarskilyrði unglinga eykst

Ánægja Garðbæinga með uppvaxtarskilyrði fyrir unglinga fær núna einkunnina 3,9 á móti 3,7 árið 2005. Hluti skýringarinnar á þessari auknu ánægju getur verið sú mikla ánægja sem kemur fram með starf félagsmiðstöðvarinnar Garðalundar og aukin ánægja með forvarnastarf í bænum, en þung áhersla hefur verið lögð á það á undanförnum árum.

Af öðru sem fram kemur í niðurstöðum könnunarinnar má nefna að útivistarsvæðin í Garðabæ, utan þéttbýlis, njóta mikilla vinsælda en rúmlega 90% íbúa eru ánægð með þau og 72,2% hafa nýtt þau undanfarna 12 mánuði.

Úrtakið í könnuninni var 2000 Garðbæingar 18 ára og eldri. Svarhlutfall var 48%.

Niðurstöður könnunarinnar eru aðgengilegar á vefnum á slóðinni:
/Stjornsysla/Ibuakannanir

Myndirnar sýna svör við spurningunni; Hversu ánægð(ur) eða óánægð(ur) ertu með að búa í Garðabæ?

Svör við spurningunni um ánægju með að búa í GarðabæHæsta einkunn