7. nóv. 2008

Traust staða á erfiðum tímum

“Peningaleg staða Garðabæjar er ágæt í dag”, segir Gunnar Einarsson bæjarstjóri. Engu að síður er nauðsynlegt að hagræða í rekstri á næstu mánuðum vegna fyrirséðs samdráttar í tekjum og aukins kostnaðar sem fylgir hárri verðbólgu.
  • Séð yfir Garðabæ
“Peningaleg staða Garðabæjar er ágæt í dag”, segir Gunnar Einarsson bæjarstjóri. Engu að síður er nauðsynlegt að hagræða í rekstri á næstu mánuðum vegna fyrirséðs samdráttar í tekjum og aukins kostnaðar sem fylgir hárri verðbólgu. Lögð verður áhersla á að grunnþjónusta við íbúa verði óskert en að draga saman á þeim sviðum þar sem hægt er að bíða með verkefni eða hægja á þeim.

Tæpur milljarður í handbæru fé
“Við erum með okkar lán í íslenskum krónum og við höfum ágæta lausafjárstöðu”, segir Gunnar um peningalega stöðu Garðabæjar í dag og bætir við, “þetta er staða sem mörg önnur sveitarfélög vildu vera í núna. Við höfum þurft að endurgreiða um 200 milljónir króna vegna lóða sem hefur verið skilað inn en það er miklu lægri upphæð en við heyrum frá nágrannasveitarfélögum okkar.”

Garðabær átti fé í peningamarkaðssjóðum hjá Glitni og Byr og varð fyrir skerðingu á þeim upphæðum eins og aðrir sem áttu í þeim sjóðum. “Við uppgjör á Sjóði 9 hjá Glitni fékk Garðabær greiddar 640 milljónir. Það þýðir að ávöxtun á þeim peningum sem við áttum í sjóðnum er aðeins 4,9% á ársgrundvelli en hún var 14,6% ef horft er til áranna 2006-2008. Hjá Byr átti Garðabær um 300 milljónir og fékk til baka 94,2% af þeirri upphæð. Auk þess eigum við rúmar 100 milljónir á greiðslureikningum. Garðabær á því í dag um milljarð króna í handbæru fé sem sýnir út af fyrir sig trausta stöðu.”

Þurfum að hagræða og spara
Þrátt fyrir þetta segir Gunnar að nauðsynlegt verði að draga saman í rekstrinum á næstu mánuðum. “Við sjáum fram á að tekjur sveitarfélagsins lækki á næsta ári. Á sama tíma hækkar fjármagnskostnaður og öll innkaup verða dýrari. Í áætlunum okkar núna reiknum við með 10% samdrætti í tekjum sem jafngildir um 350 milljónum. Við verðum því að hagræða í rekstri sem þeirri upphæð nemur. Við erum reyndar þegar byrjuð að hagræða og höfum t.d. frestað öllum kaupum á búnaði sem geta beðið. Starfsfólk Garðabæjar er mjög ábyrgt og tekur fullan þátt í þessari viðleitni með okkur með því að koma með tillögur að sparnaði og taka því sem sjálfsögðum hlut að ekki sé hægt að gera allt núna á sama hátt og vant er.”

Gunnar segir að á næsta ári verði lögð áhersla á að skerða ekki grunnþjónustu við íbúa bæjarins og að reynt verði að halda gjaldskrám og álögum á íbúa óbreyttum. “Við viljum áfram bjóða íbúum okkar upp á góða þjónustu í öllum stofnunum bæjarins. Það verður helsta markmið okkar auk þess að tryggja áfram fjárhagslega ábyrgð og stöðugleika í rekstri sveitarfélagsins.”

Framkvæmdum frestað
Það hefur ekki farið framhjá Garðbæingum að framkvæmdum við nýjan miðbæ hefur verið frestað tímabundið. “Það var nauðsynlegt að taka þessa ákvörðun, þótt hún hafi ekki verið auðveld. Aðrar framkvæmdir sem hafa verið settar á bið eru framkvæmdir við nýjar skólabyggingar, þ.e. leikskóla í Akralandi og skólabygginga í Urriðaholti, fyrst og fremst vegna þess að hverfin byggjast ekki eins hratt upp og áætlað var. Við munum hinsvegar halda áfram byggingu fimleikahússins við Ásgarð og annars áfanga Sjálandsskóla,” segir Gunnar.

Leitið aðstoðar og ráðgjafar
Gunnar tekur fram að starfsfólk Garðabæjar sé tilbúið til að veita íbúum alla þá aðstoð og ráðgjöf sem það getur. “Við vitum að margir munu upplifa mikla erfiðleika á næstu mánuðum og við munum reyna að aðstoða fólk eins og hægt er. Í þjónustuverinu á Garðatorgi er tekið vel á móti öllum og veittar upplýsingar um hvert hægt er að snúa sér vegna ýmissa vandamála. Ég hvet alla sem eru að ganga í gegnum erfiðleika til að leita sér ráðgjafar hvort sem hún snýr að fjármálum, réttindamálum eða er í formi sálræns stuðnings. Það er mikilvægt að gera það fyrr frekar en síðar til að við komumst öll heil í gegnum þessa tíma og stöndum sterkari á eftir.”