8. okt. 2008

Hægt á framkvæmdum í miðbæ

Ákveðið hefur verið að hægja tímabundið á framkvæmdum við uppbyggingu miðbæjar Garðabæjar á Garðatorgi, vegna mikillar óvissu í efnahagslífinu
  • Séð yfir Garðabæ

Ákveðið hefur verið að hægja tímabundið á framkvæmdum við uppbyggingu miðbæjar Garðabæjar á Garðatorgi, vegna mikillar óvissu í efnahagslífinu.
 
Ákvörðun þessa efnis var tekin sameiginlega af bæjaryfirvöldum og Fasteignaþróunarfélaginu Klasa hf., sem unnið hefur að uppbyggingu miðbæjarins. Fyrsta áfanga Garðatorgs lauk í sumar og stefnt var að því að halda áfram nú í haust.

Nú er ljóst að framkvæmdunum sem áttu að hefjast í haust verður frestað og því verður Garðatorg í óbreyttri mynd frá því sem nú er næstu mánuði. Bifreiðastæði sem eru nú afgirt verða gerð aðgengileg aftur en lóð bensínstöðvarinnar, sem nú hefur verið rifin, verður áfram girt af. Gamla Hagkaupshúsið stendur áfram, næstu mánuði og verður það nýtt á margvíslegan hátt.
 
Þrátt fyrir þessa frestun framkvæmda verður unnið áfram að undirbúningi verkefnisins.
 
Mikil óvissa ríkir um þróun verðlags, kostnað við byggingar og almennt rekstrarumhverfi verslana og þjónustu. Einnig er óvissa um horfur á íbúðamarkaði. Mikilvægt er fyrir verkefnið að horft sé fram á veginn og gott brautargengi þess tryggt frá upphafi. Því telja Garðabær og Klasi það sýna ábyrgð að hægja á verkefninu tímabundið og þá með það að markmiði að tryggja að verkefnið verði farsælt og í þeim gæðaflokki sem stefnt er að. Á þessum tímapunkti er einnig gott að hægja á til að stytta eins og kostur er þann tíma sem rekstraraðilar og íbúa við Garðatorg verða fyrir raski sem óhjákvæmilegt er samhliða nýrri uppbyggingu.

Enn er stefnt að því að verslanir og þjónusta geti hafið rekstur á Garðatorgi í lok árs 2010.