28. feb. 2008

Opinn skóli verði hjarta samfélagsins í Urriðaholti

Opinn skóli verði hjarta samfélagsins í Urriðaholti
  • Séð yfir Garðabæ

Skólastarf i Urriðaholti á að hafa umhverfissjónarmið að leiðarljósi, vera skapandi og einstaklingsmiðað og hafa rík tengsl við grenndarsamfélagið. Þetta er niðurstaða vinnuhóps sem hefur unnið að þróun hugmynda um hönnun skóla- og íþróttamannvirkja í Urriðaholti. Arkitekt sem hefur verið ráðinn til að hanna skólabyggingarnar fær niðurstöður hópsins sem leiðarljós að sínu starfi.

Mark Dudek arkitekt kynnir niðurstöður hópsinsGert er ráð fyrir að í Urriðaholti fullbyggðu geti búið um eitt þúsund börn á leik- og grunnskólaaldri. Auglýst var eftir áhugasömu fólki til að taka þátt í vinnu að undirbúningi hönnunar skóla- og íþróttamannvirkja í hverfinu fyrr í vetur. Dr. Anna Kristín Sigurðardóttir, forstöðumaður kennarabrautar Kennaraháskóla Íslands og arkitektinn Mark Dudek sem hefur veitt ráðgjöf varðandi hönnun skóla víðsvegar í heiminum, héldu utan um vinnuna. Hópurinn skilaði nýlega niðurstöðum sínum og voru þær kynntar á opnum fundi fyrr í vikunni.

Framtíðarsýn leik- og grunnskóla í Urriðaholti felst í þremur meginþáttum skv. niðurstöðum hópsins.

Skólarnir verða umhverfisvænir og á það að endurspeglast bæði í innra starfi og ytra umhverfi. Vistvæn sjónarmið eiga að birtast  í byggingunni sjálfri, í tengslum við náttúruna m.a. með áherslu á útikennslu og í umhverfisvænum samgöngum til og frá skóla. Hér horfir hópurinn til þeirrar einstöku náttúru sem umlykur hverfið og býður upp á fjölmarga möguleika til útiveru og útikennslu.

Annar meginþátturinn er skapandi skólastarf og einstaklingsmiðað nám. Skólastarfið á að vera skemmtilegt og taka mið af ólíkum námsþörfum barna. Sérstök áhersla er lögð á að efla með börnunum sjálfstraust, gagnrýna hugsun og víðsýni. Samstarf mun einkenna starfshætti skólans m.a. með sveigjanlegum skilum á milli skólastiga og árganga.

Í þriðja lagi er rík áhersla lögð á tengsl við grenndarsamfélagið. Hópurinn sér skólana fyrir sér sem hjarta samfélagsins þar sem öll starfsemi sem tengist börnum og unglingum er staðsett, svo sem félagsstarf unglinga, tónlistarskóli og aðstaða til íþrótta. Fólkið í hverfinu mun einnig sækja þjónustu í skólana t.d. bókasafnið, námskeið, tónleika o.fl.  Einnig er gert ráð fyrir að börnin fari úr skólanum út í fyrirtæki og stofnanir í hverfinu og er þar sérstaklega horft til Náttúrufræðistofnunar sem verður staðsett í holtinu.

Í niðurstöðum hópsins kemur einnig fram að í skólanum eigi að vera öflug verkgreinakennsla, þar eigi vellíðan nemenda að vera í fyrirrúmi og að mikilvægt sé að starfsmenn komi snemma til starfa og taki virkan þátt í að móta og útfæra kennsluhætti í samrými við framtíðarsýn skólans.

Garðabær hefur samið við Hallgrím Þór Sigurðsson, arkitekt hjá dönsku arkitekjastofunni Arkitema um hönnun á skóla- og íþróttamannvirkjum í Urriðaholti.

Skýrsla með niðurstöðum hópsins.

Frá kynningarfundinum