7. des. 2007

Hvatapeningar hækki og greiðist til 18 ára aldurs

Hvatapeningar hækki og greiðist til 18 ára aldurs
  • Séð yfir Garðabæ


Afsláttur af fasteignasköttum eldri borgara og öryrkja hækkar, á árinu 2008, verulega umfram hækkun ellilífeyris samkvæmt frumvarpi að fjárhagsáætlun ársins sem lagt var fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn í gær. Þá gerir frumvarpið ráð fyrir að hvatapeningar til íþrótta- og tómstundastarfs barna hækki og að framkvæmdir hefjist við nýjan miðbæ í Garðabæ. Rekstrarniðurstaða bæjarins er, skv. frumvarpinu, jákvæð sem nemur 386 milljónum króna.

 

Gert er ráð fyrir óbreyttu útsvari, 12,46% og að leikskólagjöld hækki ekki. Heildarskuldir bæjarins lækka. Veltufé frá rekstri á árinu 2008 er áætlað 892 mkr eða 17,7% sem ber traustri fjárhagsstöðu bæjarins gott vitni.

Heildartekjur bæjarsjóðs eru 5.051 mkr og heildarútgjöld 4.447 mkr án fjármagnsliða.

Fræðslu- og uppeldismál er sá málaflokkur sem lang mestum útgjöldum er varið til. Á árinu 2008 er áætað að 44% af heildarútgjöldum aðalsjóðs renni til málaflokksins. Öðrum 10% er varið til íþrótta- og æskulýðsmála. Stærsta breytingin í þeim málaflokki er að svokallaðir hvatapeningar sem eru styrkir til barna vegna íþrótta- og tómstundastarfs hækka úr 20 þúsund krónum á barn á ári í 25 þúsund krónur. Einnig er lagt til að hvatapeningar verði greiddir til 18 ára aldurs í stað 16 ára. Framlög til forvarnamála hækka frá yfirstandandi ári, m.a. vegna Dale Carnegie námskeiða sem unglingum í Garðabæ er boðið upp á.

Í frumvarpinu kemur fram áhersla á bætta þjónustu við eldri íbúa Garðabæjar. Gert er ráð fyrir að 30 mkr. verði varið til að hækka afslátt til þeirra af fasteignasköttum. Einnig verður veruleg hækkun á útgjöldum vegna félagsstarfs eldri borgara sem er til komin vegna opnunar nýrrar þjónustu- og félagsmiðstöðvar fyrir eldri borgara í Jónshúsi á haustmánuðum 2007. Þá er gert ráð fyrir að kostnaður við heimaþjónustu til eldri borgara hækki um 39%.

Af stærstu framkvæmdum á árinu 2008 má nefna framkvæmdir sem tengjast gatnagerð í nýjum hverfum að fjárhæð 980 mkr.

Hafin verður bygging fimleikahúss við Ásgarð og lagðar í það 290 mkr á árinu.

Framkvæmdir við nýjan miðbæ hefjast á árinu 2008 og verða lagðar 370 mkr í byggingu bílastæðiskjallara á Garðatorgi. Einnig hefjast framkvæmdir við nýtt hús fyrir Hönnunarsafn Íslands sem rís við Garðatorg.