5. nóv. 2013

Samningur um frumkvöðlasetrið Kveikjuna endurnýjaður

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar og Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar skrifuðu undir áframhaldandi samstarfssamning við Nýsköpunarmiðstöð Íslands um rekstur á frumkvöðlasetrinu Kveikjunni nú rétt fyrir helgi.
  • Séð yfir Garðabæ

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar og Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar skrifuðu undir áframhaldandi samstarfssamning við Nýsköpunarmiðstöð Íslands um rekstur á frumkvöðlasetrinu Kveikjunni nú rétt fyrir helgi. Samningurinn var undirritaður á opnu húsi sem haldið var í tilefni af endurnýjun samningsins. Í Kveikjunni fá frumkvöðlar aðstöðu til að vinna að þróun viðskiptahugmynda undir leiðsögn sérfræðinga frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Frumkvöðlarnir sjálfir eru bestu kennararnir

Endurnýjun samningsins tryggir að frumkvöðlar í Hafnarfirði og Garðabæ geta haldið áfram vinnu að viðskiptahugmyndum sínum innan um fleiri skapandi frumkvöðla. Kveikjan er til húsa að Strandgötu 31, Hafnarfirði og segist bæjarstjóri Hafnarfjarðar finna fyrir miklum samfélagslegum breytingum eftir að frumkvöðlasetrið var opnað á Strandgötunni. „Frumkvöðlasetrið og frumkvöðlarnir þar hafa með tilvist sinni og sköpunarkrafti haft jákvæð áhrif á bæjarfélagið í heild. Strandgatan og miðbærinn iðar af lífi og má nú finna skapandi smávöruverslanir á hverju götuhorn. Ég vil meina að það sé að miklu leyti frumkvöðlasetrinu að þakka“segir Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar.

Í dag eru níu fyrirtæki starfandi á setrinu og vinna þau að fjölbreyttum hugmyndum, allt frá handteiknuðum heimi tölvuleikja yfir í þróun á flotastjórnunarkerfi fyrir flugiðnaðinn. Frumkvöðlarnir á setrinu nýttu tækifærið á opnu húsi og kynntu viðskiptahugmyndir sínar fyrir gestum og bæjaryfirvöldum í sveitarfélögunum tveimur og síðast en ekki síst fyrir hinum frumkvöðlunum á setrinu. „Það er nauðsynlegt að vera á setri þegar maður er að byrja að vinna að sinni hugmynd. Frumkvöðlar í öllum atvinnugreinum eru að glíma við það sama í ferlinu t.d. fjármögnun, val sölu- og markaðsaðferða, gerð áætlana og tengsl við fjárfesta. Aðrir frumkvöðlar ásamt sérfræðingum hjá Nýsköpunarmiðstöð hafa hjálpað mér að koma á mikilvægum tengslum við umhverfið, veitt upplýsingar og ráðgjöf sem er ómetanlegt þegar frumkvöðullinn sjálfur þarf nánast að vita og geta allt“ segir Leifur Björn Björnsson eigandi Locatify, tölvufyrirtækis sem sérhæfir sig í þróun vefkerfis fyrir sérsniðnar leiðsagnir og ratleiki og nú síðast gagnvirkar barnabækur.

Snjóboltaáhrif hugmynda og nýrra atvinnutækifæra

Frumkvöðlasetrin fóstra fyrirtæki sem byggja á sérstöðu og nýsköpun og fá fyrirtækin aðstoð við upphaf nýsköpunar og rekstur í allt að fimm ár eða eins lengi og þurfa þykir. Viðskiptahugmyndir fyrirtækjanna, sem nú eru í Kveikjunni, eru mislangt á veg komnar. Sumar eru enn á teikniboðinu en aðrar hafa þegar skilað sér í stofnun sprotafyrirtækja. Kveikjan skapar þessum fyrirtækjum ekki einungis aðstöðu til framkvæmda heldur jafnframt mikilvægt tengslanet og vettvang reynslu og samstarfs á ýmsum sviðum. Með því að halda úti rekstri Kveikjunnar eru Garðabær, Hafnarfjörður og Nýsköpunarmiðstöð Íslands í sameiningu að ýta undir og efla nýsköpun og frumkvöðlastarf í atvinnulífinu með því að skapa sprotafyrirtækjum kjöraðstæður þar sem þau geta gengið að skapandi umhverfi, öflugu tengslaneti og faglegri ráðgjöf. Samstarfsaðilar um rekstur frumkvöðlasetra ýta með þátttöku sinni undir frumkvöðlastarf og skapa þannig ný atvinnutækifæri, oft í heimabyggð. „Fyrir mér er allt höfuðborgarsvæðið eitt atvinnusvæði. Ég lít svo á að ávinningur af frumkvöðlasetri skili sér ekki bara í mitt bæjarfélag heldur er líklegt að þær hugmyndir sem kvikna í Kveikjunni kveiki hugsanlega á öðrum hugmyndum annars staðar og því sé ávinningurinn allra“ segir Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ í tilefni af endurnýjuninni.

Á myndinni má sjá samstarfsaðila að baki rekstrarsamnings um frumkvöðlasetrið Kveikjuna handsala samninginn. Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði lengst til vinstri, þá Sigríður Ingvarsdóttir framkvæmdastjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Gunnar Einarsson bæjarstjóri í Garðabæ og Þorsteinn Ingi Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar. Að baki má sjá hluta af frumkvöðlum Kveikjunnar.