23. okt. 2013

Fagleg sjónarmið ráða veglínu

Ákvörðun um veglínu Álftanesvegar hefur ávallt byggst á faglegum forsendum og aldrei verið tekin í sérstöku samráði við landeigendur.
  • Séð yfir Garðabæ

Núverandi veglína nýs Álftanesvegar liggur í landi Selskarðs á sama stað og gamli Álftanesvegurinn og því verða engar bætur greiddar til landeigenda vegna hans. Ákvörðun um veglínu Álftanesvegar hefur ávallt byggst á faglegum forsendum og aldrei verið tekin í sérstöku samráði við landeigendur. 

Jörðin Selskarð er samkvæmt upplýsingum í fasteignaskrá samtals u.þ.b. 33 ha og er í eigu 12 einstaklinga, þ.á.m. systkinanna Benedikts, Guðrúnar, Einars og Ingimundar Sveinsbarna. Úr jörðinni hafa í gegnum tíðina verið seldir alls 12 skikar og er heildarstærð þeirra 2,6 ha. Af þessum skikum eru fimm í eigu Garðabæjar.

Veglínan óbreytt í landi Selskarðs

Núverandi Álftanesvegur liggur í gegnum land Selskarðs og byggir það á samningi Vegagerðarinnar og landeiganda Selskarðs frá árinu 1972.
Í aðalskipulagi Garðabæjar frá árinu 1996 var fyrst sýnd núverandi veglína nýs Álftanesvegar frá Engidal og til Bessastaða, að öðru leyti en því að veglína vegarins í landi Selskarðs var þá með öðrum hætti en hún er nú. Breyting var gerð árið 2009 þegar samþykkt var að færa veglínuna í það horf sem nú er í aðalskipulagi. Breytingin var gerð að ósk Vegagerðarinnar til hægt væri að byggja á eldri samningum um heimild til veglagningar í landi Selskarðs án frekari greiðslna til landeiganda.
Við breytinguna var jafnframt gerð sú breyting að svæði sem að hluta til er í landi Selskarðs var breytt úr óbyggðu svæði í svæði fyrir þjónustustofnanir (ekki íbúðarbyggð).

Fagleg sjónarmið

Ákvörðun um veglínu Álftanesvegar hefur ávallt verið byggð á faglegum sjónarmiðum sem grundvallast á skipulagsforsendum fyrir heildarsvæðið á Garðaholti og Álftanesi. Veglínan hefur aldrei verið ákvörðuð í sérstöku samráði við landeigendur en þeir hafa við lýðræðislega meðferð málsins getað gert sínar athugsemdir sem og þeir hafa gert. Með bréfi landeigenda Selskarðs til Garðabæjar, dags. 7. september 2012 kynntu þeir tillögur sínar um breytta legu vegarins og lýstu þeim sjónarmiðum sínum að núverandi veglína skerti nýtingarmöguleika Selskarðsjarðarinnar. Bæjaryfirvöld hafa ekki fallist á kröfu þeirra um breytta veglínu vegarins. Það er því ljóst að veglína nýs Álftanesvegar var ekki ákveðin með hagsmuni landeigenda Selskarðs í huga eins og haldið hefur verið fram í DV.

Óbyggt svæði

Samkvæmt aðalskipulagi Garðabæjar er jörðin Selskarð skilgreind sem óbyggt svæði að undanskildum þeim hluta sem skilgreindur er sem svæði fyrir þjónustustofnanir. Vangaveltur um að veglína Álftanesvegar geti varðað landeigendur fjárhagslegum hagsmunum vegna sölu lóða fá því engan vegin staðist. Lóðir verða ekki seldar á svæði sem í skipulagi er skilgreint sem óbyggt svæði.

Gunnar Einarsson fór yfir málið í viðtali í Morgunútvarpi Rásar 2, 25. október 2013.  Hægt er að hlusta á viðtalið með því að smella á hlekkinn hér fyrir neðan:

http://www.ruv.is/samgongumal/selskard-graedir-ekkert-a-alftanesvegi