30. jan. 2007

Tillögur að rammaskipulagi á Hnoðraholti kynntar 10. febrúar

Tillögur að rammaskipulagi á Hnoðraholti kynntar 10. febrúar
  • Séð yfir Garðabæ


Fimm hönnunarhópar hafa verið valdir til að vinna tillögur að rammaskipulagi íbúðabyggðar á Hnoðraholti. Hóparnir eiga að skila tillögum sínum 2. febrúar og verða þær kynntar á opnum fundi í Flataskóla 10. febrúar nk. Gert er ráð fyrir um 600-1000 íbúðaeiningum í hverfinu sem þýðir að íbúafjöldi verður á bilinu 2.000-2.700 manns. Áhersla verður lögð á sérbýli, þ.e. einbýlishús, parhús og raðhús og að fjölbýlishús verði lágreist.

Rýnihópur að störfum

Bæjarstjórn Garðabæjar ákvað síðastliðið haust að hafist yrði handa um gerð rammaskipulags á Hnoðraholti. Skipaður var rýnihópur sem samanstendur af nefndarmönnum í skipulagsnefnd auk skipulagsstjóra, bæjarverkfræðings, byggingarfulltrúa og tveggja fulltrúa meirihluta og minnihluta í bæjarstjórn. Formaður rýnihópsins er Stefán Konráðsson sem einnig er formaður skipulagsnefndar.

Að undangengnu forvali hafa fimm hönnunarhópar verið valdir til þess að vinna tillögur að rammaskipulagi byggðarinnar. Arkitektastofurnar sem leiða hönnunarhópana eru: Kanon arkitektar, Arkþing, Batteríið, Arkiteo og Zeppelín arkitektar.

Byggt ofar í holtinu og í suðurhlíðum

Í dag standa rúmlega 40 íbúðarhús í Hnoðraholti vestanverðu en nýja byggðin verður ofar í holtinu og í suðurhlíðum sem snúa beint að golfvelli GKG í Vetrarmýri. Frá Hnoðraholti er stórkostlegt útsýni til allra átta og verður holtið eflaust eftirsóknarvert til búsetu.

Rammaskipulag liggi fyrir í lok apríl

Rýnihópur mun velja tvær tillögur til frekari útfærslu og að lokum aðra af þeim tveimur. Sú tillaga verður grunnur að deiliskipulagningu hverfisins. Fyrirhugað er að niðurstaða rammaskipulagsvinnunnar liggi fyrir í lok apríl.

Rýnihóp til ráðgjafar verða arkitektarnir Einar Ingimarsson og Baldur Ó. Svavarsson.

Auk markmiða sem fram koma í aðalskipulagi er lögð áhersla á eftirfarandi:

  • Að laga byggðina að fjölbreyttu landslagi og umhverfi, allt frá háhæð holtsins að núverandi hverfi á holtinu.
  • Að skipulagið marki nýjum bæjarhluta heildstætt yfirbragð í góðum tengslum við nærliggjandi byggð.
  • Að skapa ramma um heilsteypta blandaða byggð, með lífvænlegum þjónustukjarna.
  • Að yfirbragð byggðarinnar verði þétt lágreist og aðlaðandi.
  • Að gatnakerfi verði öruggt, einfalt og auðskilið, með skýrri aðgreiningu milli akandi, gangandi og hjólandi umferðar.
  • Greið leið verði fyrir almenningsvagna sem þjóni allri byggðinni.
  • Áhersla er lögð á skýr tengsl við grænt umhverfi innan og utan hverfisins, golfvöll og uppland bæjarins.

Mynd af rýnihópi í vettvangsskoðun á Hnoðraholti

Rýnihópur í vettvangsskoðun í síðustu viku:

Frá vinstri: Ragný Guðjohnsen, Steinþór Einarsson, Eysteinn Haraldsson, Arinbjörn Vilhjálmsson, Bjarni Benediktsson, Stefán Snær Konráðsson, Eyjólfur Bragason, Einar Ingimarsson, Skúli Eggert Þórðarson og Baldur Ó.Svavarsson. Á myndina vantar Sigrúnu Aspelund og Egil Jónsson.