18. jan. 2007

Gegn einelti í Garðabæ 22.-26. janúar

Gegn einelti í Garðabæ 22.-26. janúar
  • Séð yfir Garðabæ

Í grunnskólum Garðabæjar verður lögð sérstök áhersla á verkefni sem tengjast forvörnum gegn einelti vikuna 22.–26. janúar. Markmiðið er að fjalla um jákvæð samskipti og viðhorf skólasamfélagsins. Nemendur vinna fjölbreytt verkefni tengd viðfangsefninu og verða þau kynnt í hverjum skóla.

„Gegn einelti í Garðabæ“ er samstarfsverkefni grunnskólanna í Garðabæ. Verkefnið hófst fyrir fjórum árum og er því ætlað að koma á markvissum vinnubrögðum til að fyrirbyggja og bregðast við einelti, bæta líðan og öryggi nemenda og skólabraginn í heild.

Helstu áhersluatriði eru verkefnisins:

· Að koma í veg fyrir einelti með forvörnum
· Að gera alla meðvitaða um hvað einelti er
· Að allir kunni að bregðast við einelti og viti hvert hægt er að leita eftir aðstoð
· Að setja sameiginlega stefnu gegn einelti sem mótar ramma um forvarnir og íhlutun vegna eineltis
· Að efla vitund, áhuga og færni allra starfsmanna, forráðamanna og nemenda til að vinna að forvörnum og viðbrögðum við einelti
· Að efla samstöðu starfsmanna skólanna og samræma viðhorf og vinnubrögð í aðgerðum gegn einelti
· Að viðhalda markvissu forvarnarstarfi gegn einelti í 1.–10. bekk
· Að auka fræðslu og upplýsingar til starfsmanna, forráðamanna og nemenda auk annarra íbúa bæjarins.

Ný útgáfa af upplýsingabæklingi verður afhent öllum foreldrum í foreldraviðtölum sem fram fara í skólunum um þessar mundir. Í bæklingnum eru upplýsingar um hvað einelti er, ráð til foreldra og viðbrögð skólanna við einelti. Samstarfshópur skólanna „Gegn einelti í Garðabæ” hefur látið hanna og gefa út bæklinginn og veggspjöld sem minna á ógnir eineltis. Hönnuður veggspjaldsins er foreldri í Garðabæ, Sveinbjörg Jónsdóttir.

Í vikunni verða veggspjöldin sett upp í ýmsum stofnunum bæjarins og áróðursborðar gegn einelti hengdir upp við skólana. Miklar vonir eru bundnar við þetta starf en markmið þess er að bægja frá einelti og öðrum neikvæðum samskiptum.