Garðaskóli heldur upp á 40 ára afmæli
Garðaskóli í Garðabæ tók formlega til starfa 11. nóvember 1966 og föstudaginn 10. nóvember verður 40 ára merkisafmæli skólans fagnað með pompi og pragt. Nemendur mæta sparibúnir, ýmsar uppákomur verða í skólanum, afmælisveitingar, sýningaratriði og keppni í íþróttahúsinu.
Í Garðaskóla eru nú 425 nemendur í 8.-10. bekk. Nýleg könnun fyrirtækisins Rannsóknar og greiningar sýnir að nemendur kunna einkar vel að meta skólann sinn og líður þar vel að eigin sögn.
Saga Garðaskóla er samofin sögu Garðahrepps og Garðabæjar og hér á eftir eru nokkrir punktar sem tengjast 40 ára sögu skólans.
- Skólinn hét Gagnfræðaskóli Garðahrepps þegar hann tók til starfa 11. nóvember 1966.
- Fyrsta árið voru nemendur skólans 115.
- Skólinn var nefndur Garðaskóli eftir að Garðahreppur breyttist í Garðabæ og fékk kaupstaðarréttindi 1976.
- Skólinn var fyrstu árin í leiguhúsnæði í Lyngási sem var stækkað um helming með viðbyggingu árið 1970.
- Garðaskóli hét á tímabili “Garðaskóli – fjölbrautir” og var þannig fyrirrennari Fjölbrautaskóla Garðabæjar sem var stofnaður 1984.
- Hópakerfi með áfangasniði hefur verið við lýði í skólanum á þriðja áratug.
- Garðaskóli er trúlega eini grunnskóli landsins sem hefur náð að útskrifa stúdenta, en þrír nemendur luku námi til stúdentsprófs frá Garðaskóla vorið 1982 og aðrir 13 bættust við í desember sama ár. Vorið 1983 útskrifuðust um 20 stúdentar frá skólanum. Af tæknilegum ástæðum voru lokaskírteinin gefin út af Flensborgarskóla.
- Fyrsti áfangi núverandi skólahúsnæðis var tekinn í notkun 1976.
- Bókasafn bæjarins var rekið í húsnæði skólans og var jafnframt skólasafn um árabil.
- Tólf ára nemendur stunduðu nám við Garðaskóla frá 1984-2005.
- Unglingar af Álftanesi sóttu Garðaskóla frá 1966 til 2006.
- Félagsmiðstöðin Garðalundur var stofnuð árið 1986 og hefur síðan deilt húsnæði með Garðaskóla.
- Nemendur Garðaskóla urðu flestir tæplega 740 skólaárið 2003-2004.
- Að skólabjalla hefur ekki hringt í Garðaskóla síðan 1981, þ.e. ekki í 25 ár!!
- Aðeins tveir skólastjórar hafa starfað við skólann; Gunnlaugur Sigurðsson frá stofnun skólans í rúm 35 ár og Ragnar Gíslason í tæp 5 ár frá áramótum 2001/2002.
- Þröstur V. Guðmundsson hefur verið aðstoðarskólastjóri frá 1981. Ingvi Þorkelsson var yfirkennari þar á undan.
Undanfarna daga hafa verið haldnir ,,Gagn og gaman" dagar í skólanum og nemendur hafa unnið að mörgum fjölbreyttum verkefnum.