Tónlist í hádeginu
Tónlistarskóli Garðabæjar býður til hádegistónleika alla fimmtudaga í september í tilefni af 40 ára afmæli skólans. Á tónleikunum koma fram tónlistarmenn sem allir hafa verið nemendur í Tónlistarskólanum ásamt kennurum skólans.
Fyrstu tónleikarnir verða fimmtudaginn 2. september kl. 12.15 -12.45. Á þeim koma fram Jón Svavar Jósefsson bassabaritónn og Agnes Löve skólastjóri Tónlistarskólans á píanó.
Jón Svavar lauk 8. stigi í söngnámi ásamt burtfararprófi frá Tónlistarskóla Garðabæjar vorið 2003 en hafði þá stundað þar nám í klassískum söng frá haustinu 1999 undir leiðsögn Snæbjargar Snæbjarnardóttur söngkennara. Jón Svavar var áður nemandi Tónlistarskóla Kópavogs og Nýja tónlistarskólans. Hann hefur einnig sótt námskeið í söng bæði hér á landi og erlendis. Sumarið 2002 fór Jón Svavar á Master Class námskeið í Belgíu undir leiðsögn virtra söngvara, þ.á.m. Söru Walker og Tom Krause. Hann sótti einnig námskeið hjá Kristjáni Jóhannssyni óperusöngvara í desember 2002. Síðastliðinn vetur stundaði Jón Svavar framhaldsnám í óperusöng í Vínarborg undir leiðsögn Helene M. Karusso söngkennara við Tónlistarháskólann í Vín. Jón Svavar hefur komið fram víða bæði fyrir hönd Tónlistarskóla Garðabæjar sem og á eigin vegum.
Aðrir tónleikar í tónleikaröðinni eru:
Fimmtudaginn 9. september kl. 12.15-12.45
Haukur Páll Haraldsson, söngvari við óperuna í München ásamt Agnesi Löve á píanó.
Fimmtudaginn 16. september kl. 12.15-12.45
Marta Halldórsdóttir söngkona og Örn Magnússon píanó.
Fimmtudaginn 23. september kl. 12.15-12.45
Strengjatríóið Trix
Fimmtudaginn 30. september kl. 12.15-12.45
Ástríður Alda Sigurðardóttir píanó.
Tónleikaröðin er haldin í samstarfi við menningar- og safnanefnd Garðabæjar.
Allir eru velkomnir á tónleikana og aðgangur er ókeypis.