5. jún. 2013

Ánægja með Tónlistarskóla Garðabæjar

Foreldrar nemenda við Tónlistarskóla Garðabæjar eru almennt ánægðir með skólann og telja að námið þar uppfylli væntingar sínar. Nýr vefur skólans var opnaður í vikunni
 • Séð yfir Garðabæ

Foreldrar nemenda við Tónlistarskóla Garðabæjar eru almennt ánægðir með skólann og telja að námið þar uppfylli væntingar sínar. Eitt af því sem helst var talið ábótavant í nýlegri könnun var heimasíða skólans og leiðir hans til upplýsingamiðlunar. Á því hefur nú verið gerð bragarbót með nýjum vef Tónlistarskóla Garðabæjar sem fór í loftið fyrr í þessari viku.

Könnunin var send á 309 netföng foreldra og var svörunin um 40%.

Af þeim sem svöruðu segjast 92% vera  ánægð með tónlistarskólann í heildina. 91% telur að skólinn hafi jákvæða ímynd og 88% telja að barninu líði alltaf eða oftast vel í tímum í tónlistarskólanum.

Á meðal annarra niðurstaðna má nefna:  

 • 86,5% eru ánægð með samskipti við skólann
 • 84% voru mjög eða frekar ánægði með kennsluna
 • 84,4% eru ánægðir með viðmót kennara í samskiptum við sig og 88% ánægja er með viðmót kennara í samskiptum við barnið
 • 89% telja að þeir kröfur sem hljóðfærakennarinn gerir um ástundun barnsins séu hæfilegar
 • 90% foreldra eru ánægðir með þátttöku barns á tónleikum eða tónfundum á vegum tónlistarskólans.
 • Tæplega 90% foreldra finnst námið við tónlistarskólann uppfylla þær væntingar sem þeir höfðu áður en námið hófst og 81% telja að námið uppfylli væntingar barnsins.

Dæmi um svör við opinni spurningu þar sem spurt var hvað fólk er ánægt með:

 • Mjög ánægð með hlýlegt viðmót kennara
 • Samviskusemi kennarans 
 • Hversu fjölbreytt kennslan er, gerðar kröfur til nemandans en þó tekið mið af persónuleika barnsins. 
 • Ánægður með hóptíma og samspil þar sem það gerir námið miklu skemmtilegra fyrir nemandann.

Dæmi um svör við opinni spurningu þar sem spurt var hvað fólk er óánægt með:

 • Upplýsingagjöf. Það er erfitt að finna eða nálgast upplýsingar um skólann. Ég veit ekki hvaða hljóðfæri eru í boði, á hvaða tímum kennsla er í boði, hvenær skólaár hefst, hvenær því lýkur. Facebook síðan hjálpar lítillega, en veitir ekki nauðsynlegt yfirlit.
 • Óánægður með að hóptímar/samspilshópar séu ekki í skólanum og tengist skóladeginum betur. 
 • Hefði viljað hafa tíma tvisvar í viku í stað einu sinni. 
 • Einhæft lagaval sem ýtir ekki undir áhuga nemanda .

Þess má geta að fleiri en einn töluðu um upplýsingagjöf og vef skólans og því ætti nýi vefurinn að vera kærkominn viðbót við þær leiðir sem Tónlistarskólinn hefur til upplýsingamiðlunar og samskipta við foreldra.