27. maí 2013

Góð þjónusta hjá dagforeldrum

Börnum sem eru í vist hjá dagforeldrum líður almennt vel í daggæslunni að mati foreldra þeirra. Foreldrar eru almennt ánægðir með daggæsluna og telja að umönnun og öryggi barnanna sé vel sinnt þar.
  • Séð yfir Garðabæ

Börnum sem eru í vist hjá dagforeldrum líður almennt vel í daggæslunni að mati foreldra þeirra. Foreldrar eru almennt ánægðir með daggæsluna og telja að umönnun og öryggi barnanna sé vel sinnt þar. Það sem helst virðist mega bæta er upplýsingagjöf frá dagforeldrum til foreldra.

Þetta er á meðal niðurstaðna könnunar sem fræðslu- og menningarsvið Garðabæjar gerði nýlega á meðal foreldra barna hjá dagforeldrum þar sem viðhorf þeirra til þjónustu dagforeldranna voru könnuð. Könnunin er einn liður í því að auka áhrif foreldra á þjónustu við börn sín.

Helstu niðurstöður könnunarinnar:

  • 81% svarenda var með barn sitt hjá dagforeldri sem er staðsett í Garðabæ.
  • Rúmlega 75% svarenda voru mjög ánægðir með daggæslu barns síns og 19% frekar sammála þeirri fullyrðingu.
  • 90,6% svarenda töldu að barni sínu liði vel í daggæslunni og 9,4% voru frekar sammála þeirri fullyrðingu.
  • 81% svarenda taldi einnig að aðbúnaður í daggæslunni væri góður og 12% voru frekar sammála því. 6% voru því frekar ósammála.
  • 84% svarenda töldu dagforeldri sinna öryggi barna vel og 12% voru frekar sammála því. 3% vissu það ekki.
  • 81% svarenda taldi einnig að dagforeldri sinnti umönnun barns síns vel og 12% voru frekar sammála því. 6% vissu það ekki.
  • 65% svarenda töldu barn sitt fá hollan mat hjá dagforeldri og 21% var frekar sammála. 12% vissu það ekki.
  • 69% svarenda töldu sig fá góðar upplýsingar um hvernig gæslan gekk fyrir sig, 19% voru frekar sammála því. 9% voru frekar ósammála og 3% mjög ósammála.
  • Tæp 82% foreldra voru sammála eða frekar sammála því að niðurgreiðslur bæjarfélagsins vegna kostnaðar foreldra við daggæslu í heimahúsi væru hæfilegar.

Könnunin fór fram með tölvupósti dagana 23. – 30. apríl frá bæjarskrifstofu Garðabæjar og nutu foreldrar nafnleyndar. Könnunin var send til 68 aðila sem eru með börn sín hjá dagforeldrum í Garðabæ og einnig í öðrum sveitarfélögum. Svöruðu 33 aðilar sem gerir 48% svörun.

Skýrsla með niðurstöðum könnunarinnar.