Sjáland rís í Garðabæ
Sjáland heitir nýtt strandhverfi við Arnarnesvog í Garðabæ sem framkvæmdir hafa nú hafist við. Nafn
hverfisins var tilkynnt í dag við undirritun samstarfssamnings um uppbyggingu hverfisins. Um leið voru heiti gatna, torga og göngustíga í hverfinu kynnt. Hugmyndasmiður nafngiftanna er Hallgrímur Helgason rithöfundur. Hallgrímur segir tilvalið að tengja götur og göngustíga við gömlu höfuðborgina við Eyrarsund, ekki síst þar sem heilt hverfi í Kaupmannahöfn sé lagt undir íslensk nöfn og örnefni. Tengingin eigi sérlega vel við þar sem verið sé að reisa nýja höfn og hafnarhverfi í Sjálandi.
Hægt er að lesa greinargerð Hallgríms um nöfnin með því að smella hér.
Gert er ráð fyrir að um 760 íbúðir verði í fullbyggðu Sjálandi, þar af 200 fyrir eldri borgara. Íbúar hverfisins verða um 2000 talsins. Íbúðarhúsin munu mynda lága byggð, aðallega meðfram sjávarsíðunni. Uppfylling og kví sem nú er á staðnum verður framlengd út í voginn og lítil bátahöfn mynduð í skjóli nýja tangans sem við það myndast. Á tanganum verður til fallegt byggingarland. Meginhluti bygginganna verður íbúðir en jafnframt verða í Sjálandi leikskóli auk verslunar og þjónustu. Meirihluti bílastæða í hverfinu verður í bílageymslum undir húsunum en önnur meðfram götum og aðkeyrslum.
Fyrirtækin Björgun ehf. og Bygg ehf. sjá um hönnun og skipulagningu svæðisins. Að sögn Sigurðar R. Helgasonar, forstjóra Björgunar, eru strandhverfi, í líkingu við það sem mun rísa í Garðabæ, vinsæll kostur erlendis þegar gömlum iðnaðarsvæðum er breytt í íbúðahverfi. „Björgun hefur undanfarin ár öðlast mikla þekkingu á framkvæmdum við landfyllingu undir íbúðasvæði. Við búum landið til og skipuleggjum hverfin, sjáum um hönnun helstu húsa, garða, gangstíga og gatna og fylgjum verkinu eftir í samvinnu við verktakana.“ Fyrirhugað er að fyrstu íbúðirnar í hverfinu verði tilbúnar á vormánuðum 2004.
Arkitekt hverfisins, Björn Ólafs, segir að í hverfinu verði byggingarlist gert hátt undir höfði. Það verði gert með skilmálum sem veiti arkitektum einstakra húsa svigrúm til að setja sinn svip á húsin en
tryggja um leið heildarsvip hverfisins með ákveðnum skilmálum og lita- og efnisvali.
Ásdís Halla Bragadóttir bæjarstjóri segir samninginn um framkvæmdir við nýja hverfið vera stóran áfanga fyrir Garðabæ. Hverfið muni byggjast hratt upp sem þýðir að uppbygging bæjarins verður mikið hraðari en verið hefur. „Sjáland hefur yfir sér alþjóðlegt yfirbragð, sem stafar bæði af nafngiftunum og útliti hverfisins. Ég trúi því að það verði mjög eftirsótt að búa í Sjálandi þar sem hægt er að njóta ósnortinnar náttúru og nálægðar við sjóinn á miðju höfuðborgarsvæðinu.“
Samstarfssamninginn undirrituðu þau Sigurður R. Helgason, forstjóri Björgunar ehf., Gunnar Þorláksson og Gylfi Ómar Héðinsson frá Bygg ehf. og Ásdís Halla Bragadóttir, bæjarstjóri Garðabæjar.
Ásdís Halla Bragadóttir bæjarstjóri með hornstein að Sjálandi.
Sigurður Hafliðason starfsmaður garðyrkjudeildar reri með steininn og setti hann í garðinn
sem umlykur gömlu höfnina í Garðabæ.
Hallgrímur Helgason flytur greinargerð sína um nafn hverfisins og nöfn gatna, torga og gangstíga í hverfinu.