19. mar. 2013

Góð staða Garðabæjar

Rekstrarniðurstaða Garðabæjar árið 2012 var jákvæð um 517,6 milljónir króna. Þetta er mun betri niðurstaða en áætlun gerði ráð fyrir en rekstrarafgangur samkvæmt henni var 231 milljón króna. Ársreikningur fyrir árið 2012 var lagður fram til áritunar í bæjarráði í dag.
  • Séð yfir Garðabæ

Rekstrarniðurstaða  Garðabæjar árið 2012 var jákvæð um 517,6 milljónir króna. Þetta er mun betri niðurstaða en áætlun gerði ráð fyrir en rekstrarafgangur samkvæmt henni var 231 milljón króna.  Ársreikningur fyrir árið 2012 var lagður fram til áritunar í bæjarráði í dag.

Rekstrartekjur ársins námu 7.316 m.kr. og rekstrargjöld með fjármagnsliðum voru 6.798,4 m.kr. Niðurstaðan er því jákvæð sem nemur 517,6 m.kr. Útsvar var á síðasta ári, og er enn í sameinuðu sveitarfélagi, 13,66% sem er með því lægsta sem gerist á landinu.

Fræðslumál eru stærsti málaflokkurinn
Stærsti málaflokkurinn í rekstri sveitarfélagsins er fræðslu- og uppeldismál en til hans var á árinu varið 3,3 milljörðum króna  sem er ríflega helmingur skatttekna.  Næst stærsti málaflokkurinn er íþrótta- og æskulýðsmál , en til þeirra var varið 799 milljónum og þar á eftir kemur félagsþjónustan.

Nýtt hjúkrunarheimili
Framkvæmdir síðasta árs námu samtals um 1.562 milljarði króna sem er í mjög góðu samræmi við fjárhagsáætlun sem  gerði ráð fyrir 1.536 milljónum.  Þar af var 962 milljónum varið til framkvæmda við nýtt hjúkrunarheimili á Sjálandi sem verður tekið í noktun í apríl 2013.

Fjárhagslegur styrkur
Allar kennitölur í rekstri staðfesta fjárhagslegan styrk Garðabæjar. Veltufjárhlutfall er 0,82, eiginfjárhlutfall  61% og skuldahlutfall var 90%. Skuldir og skuldbiningar í árslok námu 6.616 milljónum kr. en ekkert nýtt langtímalán var tekið á árinu.  Veltufé frá rekstri er 1.221 m.kr. en var 1.181 m.kr. árið 2011. Handbært fé í árslok var 442 milljónir.
Íbúar Garðabæjar voru 11.450 1. desember 2012 samanborið við 11.270 árið áður sem gerir íbúafjölgun um 1,6%.
Ársreikningur Garðabæjar verður lagður fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn 21. mars og til síðari umræðu  4. apríl.

Ársreikningur Garðabæjar (pdf-skjal) lagður fram til áritunar í dag í bæjarráði.