29. ágú. 2012

Mörg þörf verk unnin í sumar

Unga fólkið sem vann hjá Garðabæ í sumar lagði m.a. nýja útivistarstíga og vann að gerð áningarsvæðis fyrir göngufólk á Smalaholti
  • Séð yfir Garðabæ
Atvinnuátak á meðal ungs fólks sem Garðabær stóð nú fyrir fjórða sumarið í röð hefur tekist vel og getið af sér fjölda arðbærra verkefna. Í sumar voru m.a. lagðir nýir útivistarstígar og unnið að nýju áningarsvæði fyrir göngufólk. Bæjarlandið var hreinsað af rusli, veggjakrot afmáð og unnið að heftingu lúpínu svo eitthvað sé nefnt.

Stígar og áningarstaður í Smalaholti

Í skýrslu umhverfisstjóra og yfirflokksstjóra um átakið 2012 eru talin upp þau fjölmörgu verkefni sem unnið var að í sumar. Á meðal þeirra eru uppgræðsla, ruslatínsla, grisjun, gróðursetning, áburðargjöf á eldri trjáplöntur, lúpínuhefting, yfirlagning eldri útivistarstíga og gerð nýrra auk þess sem gaddavírsgirðingar voru fjarlægðar. Þar kemur fram að eitt stærsta verkefni sumarsins var gerð nýrra útivistarstíga í Smalaholti og vinna við nýjan áningarstað þar, sem er staðsettur í furulundi Lionsklúbbs Garðabæjar. Einnig var unnið áfram að nýjum trjásýnisreit á holtinu en vinna við hann hófst sl. sumar. Fjölbreyttar tegundir trjáa og runna voru gróðursettar í lundinum til að gleðja göngufólk og fræða.

Skýrsla um atvinnuátak sumarið 2012 

Útbreiðsla lúpínu heft

Lagt var upp úr því að nýta mannafla átaksins við að gera bæinn sem snyrtilegastan og var ruslatínsla því veigamikill fyrsti verkþáttur. Eldri hóparnir tóku fyrir svæðin í útmörkinni austan Reykjanesbrautar, en yngri hóparnir tóku opin svæði og þau svæði sem skilgreind eru vestan Reykjanesbrautar s.s. læki, fjörur og hraun til marka Álftaness.
Bæði yngri og eldri hópar unnu við lúpínuátakið. Mikil vinna var lögð í að hefta útbreiðslu Alaskalúpínu í friðlandinu sem og á fleiri svæðum í bæjarlandinu. Í friðlandi Vífilsstaðavatns var haldið áfram þeirri skipulögðu vinnu sem hófst 2008 að hefta útbreiðslu lúpínunnar. Þar var gert átak í að ná tökum á útbreiðslu hennar með fjölgun vélorfa, ásamt klippingu.

Hóparnir yfirlögðu eldri útivistarstíga í útmörkinni, eftir þörfum. Þörfin var ekki jafn brýn og áður, vegna þess að sumarátakið hefur yfirlagt og viðhaldið fjölda útivistarstíga eða malarstíga á útivistarsvæðum í útmörkinni undanfarin sumur. Samtals yfirlagðir um 3,1 km útivistarstíga í útmörk og bæjarlandi. Alls hefur aðgengi göngufólks verið bætt á um 5,0 km í sumar.

Girðingar fúavarðar

Einn af yngri hópunum var alfarið í málningarvinnu, aðallega á undirgöngum, leiksvæðum o.fl. Hann vann m.a. við að fúaverja girðingar s.s. á battavöllum, við leikskólann Lundaból og við Þjónustumiðstöð í Lyngási. Einnig bar hann á timburtröppurnar frá Kirkjulundi, hjólabrettapalla o.fl.

Atvinnuátakið hefur verið unnið í samstarfi við Skógræktarfélag Íslands og Skógræktarfélag Garðabæjar. Samningur var undirritaður 15. júní 2012 milli þessara þriggja aðila um verkefni fyrir 100 starfsmenn í tvo mánuði (júní/júlí). Stjórn Skógræktarfélags Garðabæjar fékk Ástu Steingerði Geirsdóttur garðyrkjufræðing, til að skipuleggja verkefni fyrir hópana á skógræktar- og útivistarsvæðum félagsins, fylgja þeim eftir með leiðbeiningum um rétt vinnubrögð og vera flokksstjórum til taks ef þeir þyrftu á að halda.



Bæjaryfirvöld í Garðabæ settu 80 mkr. fjárveitingu á fjárhagsáætlun 2012 í verkefnið Sumarátak vegna ungs fólks.


Fleiri myndir frá sumarstarfinu eru á http://www.facebook.com/Gardabaer.Iceland

 Unnið við gróðursetningu í beð á Urriðaholti