15. maí 2012

Nýr skólastjóri Tónlistarskólans

Bæjarráð hefur samþykkt að ráða Laufeyju Ólafsdóttur í starf skólastjóra Tónlistarskóla Garðabæjar.
  • Séð yfir Garðabæ

Bæjarráð hefur samþykkt að ráða Laufeyju Ólafsdóttur í starf skólastjóra Tónlistarskóla Garðabæjar.

Laufey hefur tónmenntakennarapróf frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og meistarapróf í tónlistarfræðslu frá háskólanum í Reading í Englandi. Hún hefur einnig lokið tveggja missera námi í stjórnun og forystu í skólastarfi frá Endurmenntun Háskóla Íslands.

Forstöðumaður tónlistarmála í sjö ár

Frá árinu 2004 hefur Laufey gegnt stjórnunarstarfi sem forstöðumaður tónlistarmála hjá Menntasviði Reykjavíkurborgar nú Skóla- og frístundasviði. Í því starfi hefur hún m.a. verið tengiliður við 18 tónlistarskóla í Reykjavík og verið yfirmaður stjórnenda skólahljómsveita í borginni. Hún hefur því viðamikla þekkingu á rekstrar- og lagaumhverfi tónlistarskóla.


Laufey hefur tekið þátt í fjárhagsáætlunargerð vegna tónlistarskóla og skólahljómsveita og verið þátttakandi í stefnumótunarvinnu m.a. vegna stefnu Reykjavíkurborgar í tónlistarmálum og stefnu um menningarfána. Laufey hefur einnig átt sæti í ýmsum nefndum og starfshópum sem snúa að málefnum tengdum tónlistarfræðslu og menningu almennt.

Tekið þátt í þróunarvinnu

Laufey hefur tekið þátt í fjölbreyttri þróunarvinnu á sviði tónlistar og tónlistarfræðslu. M.a. átti hún þátt í mótun og innleiðingu Músíkalsks pars sem var samstarfsverkefni nokkurra tónlistarskóla og grunnskóla í Reykjavík sem miðaði að því að efla tónlistarlíf og tónlistarþátttöku skólabarna og stóð yfir í 2 ár. Þá tók hún þátt í undirbúningi fyrir Biophiliu– tónvísindasmiðjur, sem var samstarfsverkefni Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, Háskóla Íslands og Bjarkar Guðmundsdóttur, svo eitthvað sé nefnt.

Skýr framtíðarsýn

Í umsögn skólanefndar um Laufeyju segir m.a. að hún hafi skýra framtíðarsýn en í ráðningarferlinu voru umsækjendur látnir gera grein fyrir sýn sinni á starf skólans til framtíðar. Í greinargerð Laufeyjar kemur m.a. fram áhugi á að auka við námsframboð skólans og þá sérstaklega með því að bjóða upp á tónlistarnám sem byggi á aðferðum Suzuki. Laufey nefnir einnig hugmyndir um að bjóða í auknum mæli upp á lengri og styttri námskeið bæði fyrir börn og fullorðna og að unnið verði að tónlistarverkefnum í samstarfi við grunn- og leikskóla.

Laufey vill ennfremur að stofnað verði foreldrafélag við skólann og að samstarf verði eflt við foreldra, aðra skóla í bænum svo og tónlistarskóla í öðrum sveitarfélögum. Hún sér fyrir sér ýmsa möguleika í notkun upplýsingatækni og að vefur skólans verði þróaður þannig að m.a. verði hægt að koma ábendingum um starfið á framfæri

Valin úr fjölmennum hópi hæfra umsækjenda

Alls sótti 31 einstaklingur um starf skólastjóra Tónlistarskólans. Umsóknarfrestur rann út 3. mars sl. Mat skólanefndar var að Eiríkur Stephensen og Laufey Ólafsdóttir væru hæfust af umsækjendum til að gegna stöðu skólastjóra Tónlistarskóla Garðabæjar. Á fundi sínum í morgun ákvað bæjarráð að samþykkja tillögu bæjarstjóra um að ráða Laufeyju í starfið.

Laufey Ólafsdóttir

Laufey Ólafsdóttir