Tilkynning vegna umfjöllunar í fjölmiðlum
Í tilefni af umfjöllun um mál nemanda við Garðaskóla telur Garðabær nauðsynlegt að koma eftirfarandi á framfæri.
-
Séð yfir Garðabæ og Arnarnesvog
Garðabæ, 30. nóvember 2020
Í tilefni af umfjöllun um mál nemanda við Garðaskóla telur Garðabær nauðsynlegt að koma eftirfarandi á framfæri.
Bæði sveitarfélagið og grunnskólar þess leggja ríka áherslu á þá skyldu sína að tryggja á öllum tímum velferð, vellíðan og öryggi allra nemenda í skólanum. Starfsmenn grunnskólanna og sveitarfélagsins leggja sig þannig fram í störfum sínum og vinna faglega að lausn allra þeirra mála sem upp koma í skólasamfélaginu. Í Garðabæ eru slík mál unnin í samræmi við viðeigandi aðgerðaráætlanir, sem sæta sífelldri endurskoðun. Vinnu eftir slíkum áætlunum er ætlað að tryggja faglega og vandaða málsmeðferð með það að leiðarljósi að ná fram farsælli lausn og tryggja hagsmuni þeirra barna sem í hlut eiga.
Í undantekningartilfellum dugar það hins vegar því miður ekki til. Mál er varða samskipti og samskiptavandamál eru sérstaklega erfið og vandmeðfarin, sér í lagi þegar börn eiga í hlut. Eðli slíkra mála er að á þeim geta verið margar hliðar og sæta stöðugri úrvinnslu starfsmanna og annarra fagaðila þar til að viðunandi lausn fæst.
Þannig hafa starfsmenn grunnskólans og sveitarfélagsins lagt mikla vinnu í að leita leiða til að leysa umrætt mál á öllum stigum þess, og leitað ráðgjafar utanaðkomandi fagaðila, m.a. fagráðs eineltismála. Málið er og hefur verið í stöðugri vinnslu, m.a. með aðkomu mennta- og menningarmálaráðuneytisins.
Að öðru leyti vísar sveitarfélagið til þess að það getur ekki tjáð sig opinberlega um einstök mál sem til meðferðar eru og mun því ekki taka þátt frekari fjölmiðlaumfjöllun eða annarri umræðu um málið.
Af hálfu Garðabæjar er þó rétt að taka fram að sveitarfélagið telur það ekki hagsmuni þeirra barna sem í hlut eiga, að mál sem þetta sé rekið í fjölmiðlum.
Gunnar Einarsson, bæjarstjóri