19. mar. 2019

Traust fjárhagsstaða Garðabæjar

Ársreikningur Garðabæjar fyrir árið 2018, sem lagður var fram á fundi bæjarráðs Garðabæjar í dag, þriðjudaginn 19. mars 2019, lýsir mjög sterkri fjárhagsstöðu sveitarfélagsins.

Ársreikningur Garðabæjar fyrir árið 2018, sem lagður var fram á fundi bæjarráðs Garðabæjar í dag, þriðjudaginn 19. mars 2019, lýsir mjög sterkri fjárhagsstöðu sveitarfélagsins.

Rekstrarafgangur nemur 806 millj.kr. en áætlun hafði gert ráð fyrir 468 millj.kr. rekstrarafgangi. Veltufé frá rekstri nam 2.146 millj.kr. sem er um 14% í hlutfalli við rekstrartekjur.

Betri rekstrarafkoma á árinu 2018 skýrist fyrst og fremst af 406 millj.kr. tekjufærslu vegna gatnagerðargjalda sem ekki var gert ráð fyrir við samþykkt fjárhagsáætlunar ársins.

Rekstur málaflokka er í mjög góðu samræmi við fjárhagsáætlun eins og rekstrarniðurstaða gefur til kynna og til marks um það þá nema rekstrargjöld án afskrifta og fjármagnsliða samtals 12.942 millj.kr. en áætlun gerði ráð fyrir 12.830 millj.kr. frávikið er um 0,8% eða sem nemur 112 millj.kr.

Kennitölur í rekstri bera vott um mjög trausta fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. Skuldahlutfall er 94% og skuldaviðmið 60%. Rekstrarniðurstaða er jákvæð um 5,3% og fjárfesting nam 18,5% í hlutfalli við rekstrartekjur. Veltufjárhlutfall nemur 0,73 og eiginfjárhlutfall 55%. Samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands voru íbúar í Garðabæ 16.279 þann 1. des. sl. og hefur fjölgað um 3,7% á árinu.

Fjárfestingar á árinu námu rúmlega 2.790 millj.kr. Helstu framkvæmdir ársins voru uppbygging grunnskóla sem námu samtals um 1.030 millj.kr., og eru stærstu framkvæmdir vegna nýbyggingar Urriðaholtsskóla og viðbyggingar við Álftanesskóla. Þá voru framkvæmdir við íþróttamannvirkja að fjárhæð 518 millj.kr. og við gatnaframkvæmdir að fjárhæð 715 millj.kr. auk ýmissa annarra smærri framkvæmda. Í nýjum Urriðaholtsskóla sem hóf starfsemi í apríl 2017 eru nú yfir 100 börn í leik- og grunnskóla og fer skólinn ört stækkandi með fjölgun íbúa í hverfinu.

Lántaka á árinu 2018 nam samtals 3.000 millj. kr. þar af 1.370 millj. vegna uppgjörs við Brú lífeyrissjóð samkvæmt samþykkt bæjarstjórnar Garðabæjar um uppgjör við sjóðinn sem byggir á tryggingafræðilegu mati á framtíðarskuldbindingu vegna lífeyrisauka.

Traust og afar sterk fjárhagsstaða Garðabæjar er undirstaða þess að Garðabær sé vel undir það búinn að mæta þjónustu vegna fjölgunar nýrra íbúa samhliða uppbyggingu nýrra hverfa. Í þriggja ára áætlun sveitarfélagsins er m.a. gert ráð fyrir að byggt verði fjölnota íþróttahús austan Reykjanesbrautar, lokið verði við viðbyggingu Álftanesskóla og byggingu íbúða fyrir fatlað fólk við Unnargrund ásamt áframhaldandi uppbyggingu á búsetuúrræðum fyrir fatlað fólk. Áfram verður unnið að uppbyggingu bæjargarðs með íþróttaaðstöðu, göngu- og skokkstígum og útilífsmiðstöð byggð í Heiðmörk í samstarfi með Skátafélaginu Vífli. Einnig verður áfram unnið að frágangi gatna og göngustíga í Urriðaholti jafnframt því sem unnið verður að gatnagerð og endurnýjun lagna og gangstétta í eldri hverfum bæjarins.

Ársreikningur Garðabæjar verður tekinn til fyrri umræðu í bæjarstjórn Garðabæjar fimmtudaginn 21. mars nk.

Ársreikningur Garðabæjar 2018 - fyrri umræða