8. júl. 2019

Vatnsveitan í Garðabæ – helstu upplýsingar

Vatnsveita Garðabæjar fær vatn frá Kópavogsbæ og kemur vatnið frá borholum í landi Vatnsendakrika í Heiðmörk.

  • Turn tekin úr kirkjuturni

Hreint vatn til neyslu hefur verið talin auðlegð sem landsmenn eigi að hafa aðgang að. Til að viðhalda og tryggja þessa auðlind er nauðsynlegt að umgangast hana með varúð og tillitssemi.

Vatnsveita Garðabæjar fær vatn frá Kópavogsbæ og kemur vatnið frá borholum í landi Vatnsendakrika í Heiðmörk.

Með reglubundnu eftirliti og heildarúttektum er aflað upplýsinga um ástand neysluvatnsins, m.t.t. efna-, eðlis- og örverufræðilegra þátta. Niðurstöður á mælingum á neysluvatni í Garðabæ eru reglulega birtar á vef heilbrigðiseftirlitsins.

Vatnsveita Garðabæjar rekur dreifikerfi vatnsveitunnar í Garðabæ, nema á Álftanesi þar sem dreifikerfið er rekið af Veitum ohf.

Rennsli og þrýstingur í dreifikerfi vatnsveitunnar er sívaktað af verkfræðistofunni Vista og hefur vatnsveitan því alltaf aðgang að rauntímaupplýsingum um rennsli og þrýsting í dreifikerfinu. Dreifikerfi vatnsveitunnar er hægt að skoða hér.

Starfsmenn vatnsveitunnar sinna viðhaldi dreifikerfisins með lekaleit, viðgerðum og endurnýjun lagna. Miklar framkvæmdir hafa staðið yfir á Flötunum, þar sem öllum lögnum er skipt út fyrir nýjar og yfirborð gatna og gangstétta endurnýjuð.

Óhjákvæmilegt er að svo miklar aðgerðir skapi rekstrartruflanir, en kappkostað er að halda þeim í lágmarki.

Ferskvatn flokkast sem matvæli og ber vatnsveitum m.a. að uppfylla matvælareglugerð og vera með sérstakt innra eftirlit og á þeim forsendum fá þær starfsleyfi. Vatnsveita Garðabæjar er með starfsleyfi frá heilbrigðiseftirlitinu og hefur vatnsveitan virkt innra eftirlit. Heilbrigðiseftirlitið hefur svo eftirlit með vatnsveitunni.

Veitur ohf. gefa nokkur hollráð um kalt vatn og notkun þess á vefsíðu sinni.

Álftanes

Veitur ohf. reka vatnsveitu á Álftanesi og sífellt er unnið að því að bæta dreifikerfi kalda vatnsins þar. Á síðastliðnu ári (2018) fóru Veitur í aðgerðir með Garðabæ til að auka vatnsstreymi til Álftaness. Það gekk vel og mælingar sýna að við það batnaði ástandið töluvert. Lagfæringar á kerfinu sem verða gerðar í sumar, t.d. endurnýjun stofnlagna, ættu að bæta ástandið enn frekar.

Í ár er unnið að endurnýjun allra götulagna í Túngötu og Norðurtúni, en þar fannst leki við ítarlega lekaleit sem farið var í á kerfinu.