17. des. 2018

Verum saman - höfum gaman, í kjölfar forvarnaviku 2018

Forvarnavika Garðabæjar var haldin dagana 3. - 10. október sl. Í kjölfar vikunnar verða gefin út nokkur stutt myndbönd á næstu vikum.

Forvarnavika Garðabæjar var haldin dagana 3. - 10. október sl. Í kjölfar vikunar verða gefin út nokkur stutt myndbönd á næstu vikum. Myndböndin eru til áminningar fyrir forráðamenn um ýmis mál sem rædd voru í þessari og fyrri í forvarnavikum, meðal annars um þema vikunnar 2018 sem var hve mikilvæg tengsl og samvera með fjölskyldu er fyrir börn. Myndböndin má meðal annars finna á facebooksíðu Garðabæjar.

Í rannsóknum á högum skólabarna sjást merki um að samverustundum fjölskyldna sé að fækka og þeirri þróun þarf að snúa við þar sem samvera hefur meðal annars mikið forvarnagildi. Einnig er mikilvægt að góð samskipti séu milli barna og unglinga og forráðamanna þeirra, að foráðamenn viti hvar börnin eru og hvað þau eru að gera. Framundan eru frí í skólum og þess vegna enn mikilvægara fyrir forráðamenn að hafa þetta í huga.  Saman hópurinn hefur safnað saman miklu efni um þetta mál, hægt er að nálgast þær á vef Saman hópsins.

Útivistartími og "rafrænn" útivistartími

Útivistartími barna er annað sem fylgjast þarf vel með. Á hverju hausti sendir forvarnafulltrúi Garðabæjar segul með upplýsingum um útivistartíma barna og unglinga heim til allra barna í 8. bekk. Mikilvægt er að fara eftir þessum útivistartíma og að foreldrar standi saman um að gera það. 

Í kjölfar forvarnaviku 2017 var gefinn út segull með svokölluðum "rafrænum útivistartíma".  Á honum komu fram leiðbeinandi tímar um hvað lagt er til að börn verji löngum tíma við skjánotkun á hverjum degi, eftir aldri.  Þessar upplýsingar geta foreldrar einnig nýtt sér til að stemma stigu við mikilli skjánotkun, sem rannsóknir sýna að getur haft neikvæð áhrif á líðan barna og unglinga.

Mikilvægi nægilegs og góðs svefns fyrir börn og unglinga

Svefn barna og ungmenna er einnig eitt af því sem foreldrar þurfa að hafa í huga. Samkvæmt rannsóknum eru börn og sérstaklega unglingar að sofa of stutt að meðaltali, og oft er svefninn truflaður með skilaboðum frá snjalltækjum.  Upplýsingar um ráðlagðan svefntíma má meðal annars finna á vef Landlæknisembættisins .