27. sep. 2024

Aldrei of seint að læra nýtt tungumál

Hópur starfsmanna hjá Garðabæ tekur nú þátt í íslenskunámskeiðum sem bærinn býður starfsfólki sem hefur annað móðurmál en íslensku upp á. Íslenskukennarinn Beata Líf segir aldrei of seint að læra nýtt tungumál.

  • Íslenskunámskeið fyrir starfsfólk Garðabæjar
    Hópur starfsmanna hjá Garðabæ tekur nú þátt í íslenskunámskeiðum sem bærinn býður starfsfólki sem hefur annað móðurmál en íslensku upp á. Það er aldrei of seint að læra nýtt tungumál

Meginmarkmiðið með íslenskunámskeiðunum sem Garðabær býður erlendu starfsfólki upp á er að efla notkun íslenska tungumálsins inni á stofnunum bæjarins og að styrkja stöðu starfsfólks sem eru innflytjendur í bæði leik og starfi. Íslenskunámskeið voru haldin í fyrravetur með góðum árangri og eru einnig haldin núna í vetur.

Íslenskukennslan er í höndum Liberis Fræðslumiðstöðvar. Beata Líf Czajkowska er einn af stofnendum Liberis og í hópi þeirra sem hefur séð um tungumálakennslu fyrir starfsfólk Garðabæjar. Hún flutti frá Póllandi til Íslands árið 2001.

Aðspurð hvaða þýðingu það hafi fyrir innflytjendur að fá íslenskukennslu þegar það kemur inn á íslenskan vinnumarkað segir Beata það vera dýrmætt af ýmsum ástæðum. Hún segir það greinilega hafa hvetjandi áhrif á fólk að fá íslenskunámskeið í gegnum vinnustað sinn.

„Að fá íslenskukennslu á vinnustað er mjög gagnlegt og ávinningur hlýst af því fyrir allt samfélagið. Þetta er ekki skyldunám en miðað við hversu margir sýna námskeiðunum áhuga þá getum við ályktað að þetta sé þýðingarmikið fyrir fólk og því finnst jákvætt að geta sótt námskeiðin nálægt vinnustaðnum,“ segir Beata en námskeiðin hafa verið kennd í fundarsölum á bæjarskrifstofu Garðabæjar. „Margir nemendur búa hér í nágrenninu og því er stutt að fara í kennslustund. Annað sem hefur mikið að segja er hópeflið, starfsmenn bæjarins hittast, kynnast og læra saman sem styrkir stöðu þeirra. Og það að námskeiðin séu ókeypis fyrir starfsmenn Garðabæjar er auðvitað stór kostur.“

Einstaklingsmiðuð kennsla

Spurð út í þær kennsluaðferðir sem leiðbeinendur Liberis noti segir Beata meginmarkmiðið vera að bjóða upp á einstaklingsmiðaða kennslu. „Við reynum að skapa þannig umhverfi að öllum líði vel í kennslustundum. Nemendur þurfa að finna fyrir öryggi í tímum til að geta lært og svo notað tunguálið. Öll erum við ólík og fólk lærir á mismundandi hátt. Sumir nemendur vilja sjónræna eða verklega kennslu en aðrir vilja hljóðræna, munnlega eða vilja helst æfa lestur og ritun,“ tekur hún sem dæmi.

Hún segir kennara Liberis reyna að koma til móts við þarfir allra nemenda og bjóða upp á fjölbreytta kennslu. „Okkur þykir mikilvægt að nemendur fái þjálfun í öllum færniþáttum tungumála, þ.e.a.s. lestri, ritun, hlustun og tali.“

En hefur Beata einhver skilaboð til þeirra sem halda að það sé of erfitt að læra íslensku á fullorðinsaldri?

„Ég ætla að segja eitthvað sem örugglega allir hafa heyrt þúsund sinnum: það er aldrei of seint að læra. Ég hvet nemendur mína til að sinna íslenskunámi eins og áhugamáli sínu og líta á tungumálakennsluna sem tækifæri en ekki kvöð.“ Þannig verður auðveldara að læra að sögn Beötu.

Hún bendir á að kennarar Liberis eru allt konur af erlendum uppruna og að þær hafi allar á einhverjum tímapunkti verið í nákvæmlega sömu stöðu og nemendur þeirra. „Sú staðreynd gefur okkur smá forskot því þannig sjá nemendur að það er hægt að læra að tala reiprennandi íslensku á fullorðinsaldri.“