28. sep. 2018

Forvarnavika Garðabæjar 3.-10. október

Forvarnavika Garðabæjar verður haldin 3.-10. október 2018.  Þema vikunnar er heilsueflandi samvera og slagorð hennar er „Verum saman – höfum gaman“. 

  • Forvarnavika Garðabæjar 3.-10. október
    Vinningsmynd í teiknisamkeppni fyrir forvarnaviku Garðabæjar 2018

Forvarnavika Garðabæjar verður haldin 3.-10. október 2018.  Þema vikunnar er heilsueflandi samvera og slagorð hennar er „Verum saman – höfum gaman“ en nemendur í leik- og grunnskólum bæjarins komu með hugmyndir að slagorði.

Í vikunni verður boðið upp á fræðslu og viðburði þessu tengt fyrir foreldra og börn í Garðabæ. Fyrsti viðburður vikunnar verður miðvikudaginn 3. október kl. 20. Um er að ræða fræðslufyrirlestur fyrir foreldra og starfsfólk í sal Sjálandsskóla þar sem tvö erindi verða haldin. Annars vegar mun Anna María Jónsdóttir, geðlæknir og einn af stofnendum Miðstöðvar foreldra og barna, ræða um mikilvægi samskipta og umönnunar og áhrif þess á heilsu og velferð til framtíðar. Hins vegar mun Róbert Marshall, ritstjóri vefsins vertuuti.is, ræða um útivist og samveru. 

Viðburðurinn á Facebook.

Teiknisamkeppni

Haldin var teiknisamkeppni meðal nemenda í leik- og grunnskólum bæjarins um mynd á veggspjöld forvarnarvikunnar. Fjórar myndir hlutu viðurkenningu og munu þær skreyta stofnanir bæjarins og minna okkur á mikilvægi samveru og tengsla.  Sá sem teiknaði vinningsmyndina  heitir Kristján Rúnar og er í 5. bekk í Hofsstaðaskóla.  Aðrir teiknarar eru Daníel Pétursson í 7. bekk í Álftanesskóla, Benedikt Breki í 1. bekk í Urriðaholtsskóla og Ásdís María sem er 5 ára og í leikskólanum Hæðarbóli.

Viðburðir vikunnar

Forvarnavika Garðabæjar er nú haldin í þriðja sinn og verða fjölmargir viðburðir í boði þetta árið:

MIÐVIKUDAGUR 3.OKTÓBER

  • Fræðslufundur fyrir foreldra og börn í Garðabæ verður í sal Sjálandsskóla kl. 20. 

FIMMTUDAGUR 4. OKTÓBER

  • Þorgrímur Þráinsson verður með opið erindi um forvarnargildi íþróttastarfs í Stjörnuheimilinu kl. 19:30.

 LAUGARDAGUR 6. OKTÓBER

  • Starfsfólk Spilavina mætir með spil og leiki í Bókasafn Garðabæjar, Garðatorgi 7, kl. 12-14. Einnig verður farið í sippó, snú-snú og parís fyrir framan bókasafnið.
  • UMFÁ verður með fjölskyldudag í íþróttahúsinu á Álftanesi frá kl. 14-17. Börnum og foreldrum er boðið að koma í íþróttasalinn og leika sér, t.d. spila badminton, bandí, körfubolta og fleira. Þjálfarar félagsins verða á staðnum. Hollar veitingar í boði fyrir þátttakendur.

SUNNUDAGUR 7. OKTÓBER

  • Sápukúluvinnustofur fyrir börn og fullorðna í Hönnunarsafni Íslands á Garðatorgi, kl. 13-15 í tengslum við skráningu á verkum Einars Þorsteins Ásgeirssonar. Þátttakendur búa til sín eigin sápukúluverkfæri og prófa sig áfram.
  • Brynhildur Ólafsdóttir og Róbert Marshall verða með útivist fyrir fjölskyldur kl. 11-14. Farið verður í hellaskoðun og eldfjallaleiðangur í Búrfellsgjá og gengið upp á Búrfell sem er afar fagur eldfjallagígur. Mæting við Vífilsstaði kl. 11 en þaðan verður ekið í halarófu inn í Heiðmörk. Munið eftir nestinu!

6.-7. OKTÓBER

  • Ratleikur fyrir fjölskyldur verður í gangi alla helgina. Leikurinn er ræstur í íþróttamiðstöðinni Ásgarði en hægt er hefja leikinn á milli kl. 10-16 laugardag og sunnudag.

MÁNUDAGUR 8. OKTÓBER

  • Sigrún Magnúsdóttir sér um Samflot í Álftaneslaug kl. 19:30. Allir velkomnir!
  • Anna Día Erlingsdóttir, íþróttakennari ætlar að kynna nýja hreystigarðinn við Arnarnesvog (nálægt dælustöð) fyrir áhugasömum kl. 17. Tilvalið fyrir fjölskyldur að koma og prófa nýju tækin.

 ÞRIÐJUDAGUR 9.OKTÓBER

  • Anna Día Erlingsdóttir ætlar að kynna nýja hreystigarðinn á milli austurenda Sunnuflatar og Reykjanesbrautar fyrir áhugasömum kl. 17. Tilvalið fyrir fjölskyldur að koma og prófa nýju tækin.

MIÐVIKUDAGUR 10. OKTÓBER

  • Anna Día Erlingsdóttir ætlar að kynna nýja hreystigarðinn á Álftanesi (fyrir framan sundlaugina) fyrir áhugasömum kl. 17. Tilvalið fyrir fjölskyldur að koma og prófa nýju tækin.
  • Unnur Valdís Kristjánsdóttir hönnuður heldur fyrirlestur um flothettuna í Hönnunarsafni Íslands á Garðatorgi kl. 12:10-12:50. Hún rekur sögu flothettunnar frá því að hugmyndin kviknaði sem verkefni við Listaháskóla Íslands til dagsins í dag.