27. jún. 2019

Ganga um Garðaholt

Þriðjudaginn 25. júní sl. fór gönguhópurinn Sjáland sem fer frá félagsmiðstöðinni Jónshúsi alla virka daga í göngu- og söguferð um Garðaholt.

  • Gönguhópurinn Sjáland við Garðaholt
    Gönguhópurinn Sjáland við samkomuhúsið á Garðaholti

Þriðjudaginn 25. júní sl. fór gönguhópurinn Sjáland sem fer frá félagsmiðstöðinni Jónshúsi alla virka daga í göngu- og söguferð um Garðaholt. Laufey Jóhannsdóttir, fyrrum bæjarfulltrúi, sem er í þessum hópi tók að sér leiðsögn. 

Staðnæmst var við Garðaholt og saga Garðaholts, skólans og samkomuhússins sem og svæðisins alls rifjuð upp. Hópurinn velti fyrir sér þrekvirkinu sem Sigurður Þorkelsson og Kristín Gestsdóttir sem bjuggu í Grænagarði hafa unnið við að koma upp hinum fallega skógi við Grænagarð.
Einnig var rifjað upp þrekvirki kvennanna í kvenfélagi Garðabæjar við endurbyggingu samkomuhússins á Garðaholti og ekki síður endurgerð Garðakirkju. Þessu næst var gengið að hringsjánni sem Rotarýklúbburinn í Görðum færði íbúum Garðabæjar að gjöf. Á háholtinu er fallegt og víðsýnt í góðu veðri.

Ganga um Garðaholt

Garðakirkja á Garðaholti

Leið hópsins lá síðan að Garðakirkju sem hefur verið sóknarkirkja Garðasóknar frá 1966. Kirkjan er byggð á rústum kirkju sem var reist í Görðum árið 1880 en var lögð niður sem sóknarkirkja árið 1914 og síðan rifin að mestu. Að frumkvæði kvenna í Kvenfélagi Garðahrepps hófst endurbygging kirkjunnar árið 1953 og var hún vígð 20. mars 1966. Þar unnu frumkvöðlar félagsins mikið og óeigingjarnt starf. Sigurlinni Pétursson var byggingarmeistari við endurgerð kirkjunnar. Kvenfélagið gaf svo marga gripi þegar kirkjan var vígð 1966.

Gönguhópurinn Sjáland við Garðakirkju

Listaverkið ,,Allt til eilífðar”

Einnig fór gönguhópurinn að listaverkinu ,,Allt til eilífðar" sem Garðafélagið hefur látið reisa í Garðakirkjugarði. Listaverkið sækir til íslenskrar byggingararfleifðar og tengir fortíð, nútíð og framtíð saman með áþreifanlegum og huglægum hætti; tengir kirkjugarðinn við Garðalindina, þar sem þraut aldrei vatn. Það voru listamennirnir Kristinn E. Hrafnsson og Steve Christer sem hönnuðu listaverkið.

Burstabærinn Krókur

Í lokin var svo gengið að burstabænum Króki. Krókur er bárujárnsklæddur burstabær sem búið var í 1923 til 1985 og er nú varðveittur sem safn í eigu Garðabæjar með upprunalegu innbúi síðustu ábúenda. Safnið og sagan lesin og skoðuð og gjafmildi þeirra sem færðu Garðbæingum Krók til varveislu sögu komandi kynslóða þökkuð. Krókur er opinn almenningi alla sunnudaga í sumar frá kl. 13-17. Hér má lesa nánar um Krók.

Hátt í 30 manns tóku þátt í þessari skemmtilegu og fróðlegu morgungöngu.